Góður dagur.

Miðvikudagurinn var tekinn snemma enda leikur gegn N-Kóreu rétt eftir hádegi og æfing enn fyrr. Þjálfari og fararstjórn höfðu horft á leik N-Kóreumanna gegn Ísrael daginn áður og menn gerðu sér góðar vonir um að ná mætti í stig í leiknum.

Leikur Serba og Eistlendinga var nokkuð mikið til umræðu og sitt sýndist hverjum. Fleiri eru þó á því að Eistar séu með besta liðið í keppninni en að Serbarnir hafi náð toppleik á hárréttum tíma. Eins og ég sagði frá í dagbókinni hérna fyrr í vikunni voru Serbarnir að reyna að koma inn þremur kanadamönnum og höfðu á endanum erindi sem erfiði. Kanadamennirnir eru allir í fyrstu línu hjá Serbunun, einn er varnarmaður en hinir tveir sóknarmenn og styrkja þeir liðið mjög mikið.

En aftur að okkar liði því rétt um hádegi var haldið af stað í höllina. Eins og hina dagana fer lögreglubíll með blikkandi ljósum fyrir strætóunum sem við ferðumst á milli með. Lögreglubíll þessi gerir reyndar takmarkað gagn og síðast í gær keyrði einhver í veg fyrir okkur. Þetta segir okkur bara að það er ekki sami samdrátturinn hjá lögreglunni hér og heima.

Smáatriðin í framkvæmdinni eru enn að vefjast fyrir Serbunum og enn þurfti að fara að leita að flöskuvatninu og þegar það kom var það of lítið. En með smá natni fékkst bætt á. Þá var komið að ávöxtunum og allir starfsmenn kinkuðu játandi kolli en ekkert gerðist. Þegar fararstjóra var ljóst við enda fyrstu lotu að ekkert myndi gerast ákvað hann að redda málinu sjálfur. Arkað var af stað út í næsta stórmarkað og rétt eins og þegar hann fór með U18 liðið til Kína var nokkuð horft á hann eftir verslunarleiðangurinn. Augnaráðið var þó öllu meira í Kína, en fólk veltir því sjálfsagt fyrir sér af hverju jakkafataklæddur maður með bindi kemur í stórmarkað og kaupir ekkert annað en 30 stykki banana eða svo. Göngutúrinn tók 30 mínútur þannig að ég missti aðeins af leiknum en þó ekki því sem skipti öllu máli.

Að horfa á liðið ná sér upp frá því að vera 2 0 undir í að vinna 2 3 var virkilega sætt svo ekki sé nú meira sagt. Toppurinn hingað til en vonandi verða þeir fleiri. Eftir leik var haldið upp á hótel og tóku menn vel á í matnum. Sumir ákváðu reyndar að verðalauna sig hamborgurum frá amerískri keðju rétt til að fá smá tilbreytingu í mataræðið.

Það sem eftir var dags var frjáls tími sem menn nýttu til skoðunarferða og afslöppunar af ýmsu tagi.

HH