08.04.2009
Það getur stundum vafist fyrir manni að skrifa dagbók þegar maður byrjar undirbúning að hokkíleik klukkan um tólf að hádegi og er svo að koma heim á hótel klukkan tólf á miðnætti eftir að hafa horft á þrjá hokkíleiki. Það er ekki mikið annað sem gerist en hokkí en við reynum nú samt. Liðið vaknaði mátulega snemma eða um klukkan níu því Richard þjálfari hafði ákveðið að sleppa morgunæfingu og fara þess í stað í göngutúr. Síðan var tekinn stór morgunverður og svo slappað af allt þangað til lagt var af stað upp í höll um tólf. Rétt eins og vanalega þurfti að redda ýmsu smálegu, skráning eins leikmanns þvældist á milli manna og virtist ómögulega ætla að koma inn en það hafðist. Flöskuvatnið sem liðið á að fá á sér sérstaklega erfiða fæðingu en liðið fékk í upphafi leiks vatn en síðan ekki söguna meir. Vatnsmaðurinn lét ekki sjá sig, svaraði ekki síma og á endanum þurfti fararstjórinn að fara í mótstjórn. Svo heppilega vildi til að þeir áttu nóg af vatni handa sér og voru tvær kippur teknar traustataki og bornar á bekkinn hjá íslenska liðinu. Eins og sjá má annarsstaðar á síðunni tapaðist leikurinn í framlengingu og ekki mikið meira um það að segja, við gerum bara betur næst. Leikmenn héldu heim á hótel í mat og afslöppun en þjálfara og fararstjórnar biðu ýmis verkefni svosem að horfa á leiki og hjálpa fjölmiðlum heima á Íslandi. Eftir að hafa séð Norður-Kóreumenn og Ísraela spila eru menn nokkuð vissir um að þetta eru lið sem við eigum að eiga ágætis möguleika á móti. Um kvöldið var síðan opnunarhátíðin sem var ágætlega framkvæmd af serbunum eins og svo margt annað. Segja má að þegar kemur að stóru hlutunum, því sem allir sjá, þá séu serbarnir í essinu sínu en smáatriðin (sem geta nú reyndar orðið ansi mikilvæg) eru svolítið að klikka hjá þeim. Það var Theadore, gestgjafi íslenska liðsins, sem leiddi það inn á völlinn en stúlka þessi nýtur mismikilla vinsælda hjá leikmönnum. Sumir þeirra held ég að hafi jafnvel íhugað að sækja með hraði um kínverskan ríkisborgararétt í von um að ná betra sambandi við gestgjafa þess liðs. Eftir opnunarhátíð var síðan leikur Serbíu og Eistlands en hann er talinn vera úrslitaleikur riðilsins. Leiknum lauk með sigri Serba eftir framlengingu og vítakeppni. Leikmenn íslenska liðsins sáu fyrsta hlutann í höllinni en síðan var haldið í kvöldmat uppá hótel sem borðaður var rétt eftir tíu að kvöldi til. Eftir það var kærkomin hvíld fyrir þá og svo er það næsti leikur og þar verður ekkert gefið eftir.
HH