05.04.2009
Ferðalag karlalandsliðs Íslands hófst nokkuð snemma laugardaginn 4. apríl og í stuttu máli má segja að það hafi gengið áfallalaust alla leið. Í lengra máli má segja að eitt og annað smálegt hafi komið uppá en allavega var það ekki svo mikið mál að nein teljandi vandræði hlytust af. Sem betur fer var hægt að tékka farangurinn alla leið því ekki er ólíklegt að smá yfirvigt hafi verið fylgifiskur okkur. Hún var samt ekki meir en það að flestar starfsstúlkurnar hjá Icelandair horfðu í hina áttina. Einungis ein áhyggjufull starfsstúlka varð á vegi okkar og var ákveðið með hraði að hætta að bóka hjá henni. Stoppið í London var mátulega langt til að svangir hokkíleikmenn gátu nært sig en einsog aðstandendur þeirra vita eru þeir allt að því óseðjandi. Fluginu yfir til Belgrad seinkaði aðeins og þegar þangað var komið kom í ljós að verkfærataskan var týnd en einnig höfðu kylfurnar hans Emils týnst í London. Skýrslur voru skrifaðar og síðan heilsað upp á móttökunefnd mótshaldara í flugstöðinni. Síðan var haldið út í rútu en þegar fyrstu menn mættu þangað sat þar öldruð kona nokkuð ánægð með lífið. Ánægja hennar fór þó síminnkandi þegar ungir menn sem töluðu óskiljanlegt tungumál fóru að týnast í rútuna. Á endanum hvarf hún á braut enda búin að átta sig á því að hennar jafnaldrar voru í næstu rútu fyrir aftan okkar. Bílstjórinn okkar hóf svo ferðina á því að keyra undir þakið á undirgöngunum í flugstöðinni en það var svosem ekkert stóralvarlegt, bara sett í bakkgírinn og valin önnur leið.
Klukkustund seinna voru við komnir til Novi Sad og byrjað var á að fara með hokkídótið í höllina sem lýtur ágætlega út. Reyndar eru nokkuð strangar reglur varðandi inngöngu í hana. T.d. má ekki fara inn með byssur, hunda eða kylfur og allur nasistaáróður er bannaður í henni svo fátt eitt sé talið. Við sluppum inn!
Síðan var haldið uppá hótel og þar biðu okkar nokkuð öðruvísi mótttökur en við áttum von á. Fyrst komu fyrir framan rútun tvær föngulegar stúlkur með íslenska fánan á milli sín en síðan brast á Björk, Queen og gerfisnjór í anddyri hótelsins og þótti sumum nóg um (kanski sjáanlegur á myndinni sem Pétur Maack tók af Agli Þormóðssyni og Gunnari Guðmundssyni). Við lobbýið var boðið upp á fordrykk, óáfengan að sjálfsögðu en síðan fóru menn í að bóka sig inn og koma sér fyrir. Eftir það var borðuð síðkvöldsmáltíð enda mannskapurinn enn orðinn svangur og síðan var haldið til herbergja því þótt ferðalögin hafi oft verið lengri þá var mannskapurinn orðinn frekar teygður.
Í von um að ekki líði svona langur tími í næstu dagbók
HH