Fyrsti dagur að kveldi kominn

Hópurinn lenti á í Sydney kl. 06:00 að staðartíma og við tók um 1 klst akstur á Hótelið.  Hér er þó ekki um eiginlegt hótel að ræða heldur lítil hús sem hvert hýsir 5 leikmenn og aðstaðan öll eins og best verður á kosið.  Fyrsta æfingin fór fram á milli kl. 14:30 og 15:30 í dag í ágætri skautahöll sem staðsett er skammt frá hótelinu.  Ísinn er þó frekar mjúkur og ekkert gler er á rammanum heldur aðeins net.  Á þessum ís verður leikurinn gegn Ice Dogs annað kvöld og því má gera ráð fyrir óvenjumörgum stoppum þegar pökkurinn fer í netið fyrir aftan mörkin.
 
Strákarnir voru heldur rygaðir á æfingunni en það er svo sem ekki óeðlilegt eftir langt ferðalag auk þess sem klukkan var um 04:00 að nóttu í þeirra huga, en hér er klukkan 11 tímum á undan.  Eftir æfingu var létt máltíð og verslað inn fyrir morgunmat.  Síðan tóku við fundarhöld en stefnt er á að fara snemma í háttinn í kvöld eða um kl. 21:00. 
 
Ákveðið var að taka æfingu í fyrramálið og segja má að hún verði með fyrra fallinu, eða kl. 05:00 og því er ræs kl. 04:00 - morgunstund gefur gull í mund.  Annars eru allir hressir og fullir tilhlökkunar fyrir komandi átök.