06.03.2007
Í kvöld mætti íslenska U18 ára landsliðið liði S-Afríku. Það er skemmst frá því að segja að yfirburðir Íslands voru miklir frá upphafi til enda og leiknum leik með 14 mörkum gegn 2. Loturnar fóru 4 – 0, 7 – 1 og 3 – 1. Líkt og gengur þá var leikur íslenska liðsins ekki alveg hnökralaus en engu að síður er erfitt að setja eitthvað út á leik liðs sem vinnur með slíkum yfirburðum.
Pétur Maack var í leikslok valinn maður leiksins en hann fór mikinn í kvöld og skoraði þrennu auk þess sem hann var með 3 stoðsendingar. Kolbeinn Sveinbjörnsson var einnig atkvæðamikill í sókninni og skoraði 4 góð mörk. Orri Blöndal var öflugur í vörninni og lét andstæðinganna finna vel fyrir sér með nokkrum hörðum tæklingum. Annars voru flestir að spila mjög vel í dag, bæði í vörn og sókn en það krefst töluverðrar einbeitingar að halda dampi í heilan leik gegn veikara liði. Markmenn liðsins þeir Aron Stefánsson og Ævar Björnsson skiptu leiknum bróðurlega á milli sín og höfðu það frekar náðugt þar sem leikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi andstæðinganna.
Liðið spilaði 3. lotuna af miklum krafti og tók m.a. flest skot einmitt í þeirri lotu en uppskáru aðeins þrjú mörk – en það skiptir ekki máli því það eru stigin sem telja.
Á morgun er frídagur en dagurinn verður tekinn snemma þar sem stefnan er tekin á Kínamúrinn. Þangað er um tveggja klst akstur frá hótelinu og því verður lagt af stað í bítið í fyrramálið.
Mörk / stoðsendingar
Pétur Maack 3/3, Kolbeinn Sveinbjörnsson 4/0, Þorsteinn Björnsson 1/3, Egill Þormóðsson 2/1, Mattías Sigurðsson 0/3, Ragnar Kristjánsson 0/2, Sigurður Árnason 1/1, Andri Mikaelsson 1/0, Gunnar Þór Jónsson 1/0, Róbert Pálsson 0/1.
Brottvísanir:
Ísland 10 mín
S-Afríka 14 mín