02.04.2011
Síðasti leikur Íslands á Heimsmeistaramóti kvenna 4.deild lauk í kvöld með tapi gegn Kóreu 1-4. Eina mark leiksins skoraði Hanna Rut Heimisdóttir (biðjumst velvirðingar á að hafa skráð markið á Hrund Thorlacius en dómarar leiksins dæmdu henni það fyrst en það var svo leiðrétt). Steinunn Sigurgeirsdóttir sóknarmaður frá Birninum var valin maður Íslenska liðsins í lok leiks.
Með þessum leik, fyrir fullu húsi í Skautahöllinni í Laugardal, lauk fyrsta alþjóðlega íshokkímóti kvenna á Íslandi. Nýja Sjáland vann alla sína leiki, var efst með fullt hús stiga eða tólf og færist því upp í þriðju deild að ári. Kórea kom næst með 9 stig, Ísland þriðja með 6 stig tvo unna leiki og tvö töp. Rúmenía lenti í fjórða sæti með einn unnin leik og þrjú stig og Suður Afríka rak lestina með ekkert stig.
Anna Sonja Ágústsdóttir var valinn varnarmaður mótsins. Besti markmaður mótsins var kosin Shin So Jung frá Kóreu og besti sóknarmaður Emma Gray frá Nýja Sjálandi en hún var einnig valinn besti leikmaður Nýsjálenska liðsins og var markahæst. Besti leikmaður Íslands á mótinu var valin Karitas Halldórsdóttir markmaður.
Þetta fyrsta Heimsmeistaramót kvenna í íshokký á Íslandi tókst í alla staði mjög vel, liðin fara heim með góðar minningar og reynslunni ríkari. Íshokkísamband Íslands óskar stelpunum til hamingju með bronzið.