Hokkíhelgi

Hokkíhelgin að þessu sinni er með eilítið óvenjulegu sniði. Annarsvegar fara fram hér í Reykjavík tveir leikir sem eru hluti af undirbúningi landsliðsins fyrir HM í Eistlandi. Hinsvegar halda stelpunar okkar norður yfir heiðar og taka þátt í val-móti.

En byrjum á köllunum því um helgina má segja að undirbúningur fyrir HM í Eistlandi fari á fullt með æfingaleikjum gegn HC Storm frá Finnlandi. Fyrri leikurinn er á morgun laugardag í Egilshöll klukkan 19.00 en sá síðari í Laugardalnum klukkan 18.30 á sunnudeginum. Liðið mun síðan halda í æfingabúðir til Mörrum þann 6. apríl þar sem æft verður þangað til haldið verður til Tallin í Eistlandi. Ekki næst að ná öllum okkar sterkustu mönnum heim en þess í stað munu Daniel Kolar og Timo Koivumäki styrkja liðið gegn Storm. Því er hægt að lofa spennandi og skemmtilegum hokkíleikjum hér syðra um helgina. Þess má geta að áskrifendur Morgunblaðsins fá ókeypis á leikinn framvísi þeir miða sem finna má í auglýsing í laugardagsblaðinu.

Fyrir norðan fer síðan fram val-mót (draft) hjá stelpunum. Svipað mót fór fram í Egilshöll fyrir jól. Liðin sem keppa að þessu sinni eru þrjú. Settir eru fyrirliðar sem síðan velja sér leikmenn jafnt og þétt þangað til enginn leikmaður er eftir. Skipt er á eins og hálfs mínútna fresti og allar línur spila.

Að lokum má geta þess að drengirnir í U18 ára liðinu koma heim á morgun frá Narva í Eistlandi eftir að hafa tekið þátt í 2. deildinni á HM þar. Liðið hefur staðið sig ágætlega en vitað var að á brattann yrði að sækja þar sem liðið kom upp úr 3. deild á síðasta tímabili. Síðar í dag kemur í ljós hvort liðið heldur sæti sínu í deildinni eður ei. Meira um það síðar en við minnum á pistlana frá Sigurði Kr. Björnssyni sem eru á U18-tenglinum en þar heldur hann úti dagbók um ferðalagið. 

Fyrir þá sem kíkja á leikinn á morgun er tilvalið að kíkja á ágrip af helstu reglum hér.

HH