Hokkíhelgin að þessu sinni fer fram á Akureyri en á morgun laugardag fara fram tveir leikir í meistaraflokki.
Fyrri leikurinn er leikur Jötna og Húna í meistaraflokki karla og hefst sá leikur klukkan 16.30. Húnarnir léku síðastliðinn þriðjudag gegn SR-ingum og máttu þola nokkuð stórt tap en leikurinn endaði 3 - 10. Húnarnir sýndu þó ágætis takta inn á milli en varnarleikurinn varð þeim að falli. Jötnarnir eru á hinn bóginn að leika sinn fyrsta leik á tímabilinu og því er liðið nokkuð óskrifað blað á þessu tímabili. Leikurinn gæti því orðið áhugaverður en Jötnar náðu ágætis árangri á síðasta tímabili náðu Jötnar að hala inn 17 stigum í 18 leikjum.
Að leik karlanna loknum spila lið Ynja og Bjarnarins í meistaraflokki kvenna. Þetta er annar leikurinn í kvennaflokki á þessu tímabili en áður höfðu Ásynjur haft sigur á Birninum með 5 mörkum gegn 2. Lið Ynja og Bjarnarins áttust við fjórum sinnum á síðasta tímabili og þar af unnu Bjarnarstúlkur þrisvar sinnum en Ynjur einu sinni. Allt getur því gerst í viðureigninni á morgun og því von á spennandi leik.
Mynd: Elvar Freyr Pálsson
HH