27.03.2011
Heimsmeistaramót kvenna í 4.deild í íshokkí verður sett í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld kl. 19.45 af Menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur og stendur mótið til 1. apríl. Þátttökuþjóðir eru Ísland, Nýja Sjáland, Rúmenía, Suður Kórea og Suður Afríka. Fyrsti leikur Íslands fer fram að mótssetningu lokinni eða klukkan 20.00 er liðið mætir liði Nýja-Sjálands.
Þetta er stór dagur í sögu íshokkís og sérstaklega í sögu íshokkís kvenna en þetta er í fyrsta sinn sem Heimsmeistaramót í íshokkíi kvenna er haldið á Íslandi. Fyrir utan erlendu liðin og fararstjórnir þeirra sem hingað eru komin þá eru hér einnig komnir fulltrúar frá IIHF Alþjóða Íshokkísambandinu til þess að sinna skyldustörfum við mótið og meðal þeirra eru kvendómarar frá 8 löndum til þess að dæma leikina.
Íslenska liðið er að keppa á HM í fjórða sinn, vann 4. deild árið 2008 og vann sér rétt til að keppa í 3. deild en vegna breytinga sem Alþjóða íshokkísambandið gerði á efri deildum færðist liðið aftur niður í 4. Deild. Stelpurnar okkar eru taldar eiga ágæta möguleika að sigra þetta mót og enn betri með góðum stuðningi áhorfenda. ÍHÍ skorar á alla til þess að koma í Laugardalinn til að hvetja íslenska liðið, leikirnir verða án efa mjög spennandi og skemmtilegir.
Dagskrá mótsins er eftirfarandi:
27.03.2011 Suður-Afríka – Kórea kl. 16.30
27.03.2011 Nýja-Sjáland – Ísland kl. 20.00
28.03.2011 Rúmenía – Suður-Afríka kl. 16.30
29.03.2011 Kórea – Nýja-Sjáland kl. 16.30
29.03.2011 Ísland – Rúmenía kl. 20.00
30.03.2011 Suður-Afríka – Ísland kl. 20.00
31.03.2011 Nýja-Sjáland – Suður Afríka kl. 16.30
31.03.2011 Kórea – Rúmenía kl. 20.00
01.04.2011 Rúmenía – Nýja-Sjáland kl. 16.30
01.04.2011 Ísland – Kórea kl. 20.00