Nú er fyrsta keppnisdegi íslenska karlalandsliðsins í íshokkí lokið hér í höfuðborg Króatíu, Zagreb. Ferðalagið hingað gekk vel, allt gekk eins og smurð vel, allar áætlanir stóðust og allir komust á leiðarenda ásamt öllum farangri.
Hér á keppnisstað er jafnframt allt eins og best verður á kosið, hótelið gott og skautahöllin við hliðina á hótelinu og veðrið leikur við okkur enda hér farið að vora, fuglarnir syngja í trjánum og hitastigið er um 20°.
Liðið mun etja kappi við erfiða andstæðinga hér í Zagreb næstu vikuna en mótherjarnir eru auk heimamanna, Belgía, Serbía, Spánn og Ástralía. Aðeins Serbíu hefur Íslands unnið áður en það var á HM í fyrra í Reykjavík 5 – 3.
Fyrsti leikurinn var í dag gegn Belgum og lauk þeim leik með 1 – 4 ósigri en segja má að tölurnar gefi ekki rétta mynd af leiknum. Liðið fór hægt af stað og virkaði óöruggt í upphafi en óx ásmeginn þegar leið á leikinn. Markmaður Belga var góður og þeir komust jafnframt allt of mikið í skyndisóknir.
Eina mark Íslands skoraði Emil Alengaard og hann var í leikslok valinn besti leikmaður íslenska liðins. Kristján Maack var með myndavélina á lofti og afraksturinn má sjá hér
Á morgun mætum við Áströlum kl. 13:00 að staðartíma sem er kl. 11:00 heima á klakanum. Við Ástralíu spiluðum við síðast árið 2008 á þeirra heimavelli og töpuðum 3 – 0. Við getum gert betur en það og munum láta andfætlingana finna vel fyrir okkur.