Heimamenn Búlgarar lagðir!

U18 landslið kvenna sem tekur nú þátt í heimsmeistarakeppni Alþóða Íshokkísambandsins í annarri deild B sem leikin er í Sofíu í Búlagaríu. Spilaði sinn fjórða leik í dag við heimamenn Búlgara. Okkar stúlkur hreinlega yfirspiluði Búlgara í fyrsta leikhluta, eins og sést best á því að við áttum 10 skot á markið á meðan Búlgarar áttu eitt. Við uppskárum eitt mark frá Sólrúnu Össu Arnardóttur eftir stoðsendingu frá Ragnheiði Ragnarsdóttir og fórum inn í leikhlé með þægilega 1-0 stöðu. 

Í öðrum leikhluta komust Búlgarar meira inn í leikinn og jöfnuðu þeir þegar rétt um fjórar mínútur voru liðnar af öðrum leikljuta. Búlgararnir komust sífellt meira inn í leikinn og horfandi hér heima var eins og við værum að gefa aðeins eftir. Við náðum síðan að bæta við öðru marki rétt fyrir lok leikhlutanns þar var Amanda Bjarnadóttir að verki. Frumkvæðið var okkar og í þessum leikhluta áttum við 14 skot á mark og Búlgarar 9. Staðan eftir annan leikhluta 2-1 fyrir okkar stúlkum. 

Þriðji leikhluti byrjaði með látum. Búlgarar í skyndisókn 40 sekúndum eftir að leikhlutinn fór í gang og smelltu á okkur marki. Leikurinn jafn 2-2 og okkar stúlkur voru örlítið slegnar út af laginu. Aftur dró til tíðinda þegar Búlgarar skoruðu sitt þriðja mark 2-3 þegar u.þ.b. 6 mínútur voru liðnar af leikhlutanum og tóku forystu í leiknum. Sólrún Assa Arnardóttir svaraði fyrir Ísland og jafnaði þegar  átta og hálf mínuta voru eftir að leiktímanum. Hennar annað mark i leiknum og aftur eftir stoðsendingu frá Ragnheiði Ragnarsdóttur. Þegar fjórar of hálf mínúta voru eftir skoraði Amanda Bjarnadóttir mark eftir stoðsendingu frá Evu Hlynsdóttur og við komin í forystu á nýjan leik. Það var svo Sólrún Assa sem kláraði frábæran leik sinn með með sínu 3 marki stoðsendingarlausu þegar 10 sekúndur voru eftir að leiktímanum. Þrenna hjá henni í dag. 

Heilt yfir má segja að við vorum betri aðilinn í leiknum. Þó hleyptum við heimamönnum helst til of mikið inn í leikinn um miðbik hans. En áttum svo frábæran endasprett og þriðji sigurinn í þessari keppni staðreynd. 

Úrslit

Ísland 5 - Búlgaría 3
Skot á mark 34:21 (10:1)(14:9)(10:11)
Mörk islands: Sólrún Assa Arnardóttir 3, Amanda Bjarnadóttir 2
Stoðsendingar: Ragnheiður Ragnarsdóttir 2, Eva Hlynsdóttir 1