Frá leik liðanna fyrr í vetur Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir
Fyrsti leikurinn í úrslitakeppni meistaraflokks karla fer fram á morgun, þriðjudag, en þá mætast í Skautahöllinni í Laugardal lið Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins. Leikurinn hefst klukkan 19.30.
Þetta er í fyrsta sinni sem þessi tvö félög leika til úrslita gegn hvort öðru síðan byrjað var að leika úrslitakeppni um íslandsmeistaratitilinn árið 1992.
Liðin hafa mæst fjórum sinnum á tímabilinu. SR-ingar unnu 3 leiki, þar af einn eftir að jafnt hafði verið í lok venjulegs leiktíma, en Bjarnarmenn einn leik. SR-ingar hlutu því 8 stig úr leikjum vetrarins en Bjarnmenn 4. Þetta skiptir þó litlu hvað varðar leikinn á morgun. Bæði lið hafa styrkt sig frá því að tímabilið hófst, Pétur Maack gekk til liðs við SR-inga og hjá Bjarnarmönnum bættust þeir Róbert Freyr Pálsson, Úlfar Jón Andrésson og Gunnar Guðmundsson við.
Fyrrnefndur Pétur Maack hefur verið meiddur hjá SR-ingum undanfarið og Styrmir Örn Snorrason markmaður Bjarnarins hefur verið frá í undanförnum leikjum. Ekki er vitað hvort fyrrnefndir leikmenn munu taka þátt í leiknum á morgun.
HH