Fréttatilkynning (send á alla fjölmiðla)

Íslenska liðið stefnir á gull - Heimsmeistaramót í íshokkí á Íslandi  
Heimsmeistarakeppni 3. deildar karla í íshokkí 2006 fer fram í Skautahöllinni í Laugardal frá 24. til  29.apríl n.k.   Þátttökuþjóðir utan Íslands eru Armenía, Írland, Lúxemborg og Tyrkland.  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Menntamálaráðherra setur mótið formlega á mánudagskvöldið kl. 19.45 að viðstöddum heiðursgestunum Miroslav Subrt æviforseta Alþjóða Íshokkísambandsins, Ellert B. Schram forseta ÍSÍ, Stefáni Konráðssyni framkvæmdastjóra ÍSÍ, Ólafi G. Einarssyni fyrrum Menntamálaráðherra, fulltrúum fjölmargra styrktaraðila Íshokkísambands Íslands og fleiri góðum gestum. Fyrsti leikur íslenska liðsins fer fram að mótssetningu lokinni þegar íslenska liðið tekst á við liðið frá Lúxemborg.
 
Það er spennandi vika sem bíður liðanna og áhugamanna um íshokkí en leiknir verða alls 10 leikir frá mánudegi til laugardags. Þetta er í 8. sinn sem ÍHÍ teflir fram landsliði í fullorðinsflokki og í þriðja sinn sem heimsmeistarakeppnin er haldin hér á Íslandi.  Vorið 2004 léku strákarnir á heimavelli og unnu sig upp í 2. deild en á síðasta ári var haldið til Belgrade í Serbíu og Svartfjallalandi þar sem liðið féll aftur í 3.deild.  Í ár er íslenska liðið hins vegar ákveðið í að vinna mótið og ná sæti í 2. deild á ný.  Landsmenn eru að sjálfsögðu hvattir til að fjölmenna í Skautahöllina í Laugardal til að hvetja strákana til dáða.
 
Óvenjuungt lið
Stemningin er mjög góð í íslenska liðinu og leikmenn allir í góðu formi.  Liðið hefur verið að ganga í gegn um endurnýjun og er meðalaldur mjög lágur miðað við önnur landslið.  Þeir ungu leikmenn sem eru í liðinu núna hafa æft vel og lengi, þeir hafa góðan leikskilning, mikið þol og tækni.  Í liðinu eru einnig reynsluboltar með marga leiki að baki eins og varnarmaðurinn Ingvar Þór Jónsson og sóknarmennirnir Jónas Breki Magnússon og Rúnar Rúnarsson sem eiga allir yfir 30 landsleiki að baki.  Tveir atvinnumenn eru í liðinu þeir Jón Gíslason og Daníel Eriksson sem léku með Nordic Vikings í Asíu-deildinni sl. vetur.

Strákarnir stefna á að vinna þetta mót og telja sig hafa mikla möguleika á því og þar með færast upp í aðra deild.  Aðalþjálfari landsliðsins Ed Maggiacomo er einnig mjög bjartsýnn á að liðið nái gulli.  Hann segir það hafa gefið liðinu meiri breidd að hafa fengið leikmenn, sem eru að spila erlendis, með í liðið og segir íslenska liðið hiklaust eiga heima í 2. deild.
 
Íslendingar góðir að sækja heim
Umgjörð keppninnar er mjög vegleg að þessu sinni og hinir fjölmörgu gestir sem sækja okkur heim í tilefni hennar munu án efa fara héðan með góðar minningar um upplifun sína af landi og þjóð.  Undirbúningur hefur staðið í þó nokkurn tíma og verða það ótal margir sem hafa lagt til sjálfboðavinnu við keppnina þegar henni lýkur á laugardag.  Ekki má gleyma hinum fjölmörgu fyrirtækjum sem hafa lagt íþróttinni lið með stuðningi sínum en með hinum dygga stuðningi hefur ÍHÍ verið gert kleift að hefja þessa skemmtilegu og spennandi íþrótt til þess vegs og virðingar sem hún verðskuldar.
Dagskrá
Heimsmeistarakeppni 3. deildar karla í íshokkí 2006:


Mánudagur 24.apríl                  kl.16.00           Armenía og Tyrkland   
                                           kl.19.45           Mótssetning
                                           kl.20.00           Lúxemborg-Ísland
 
Þriðjudagur 25.apríl                  kl.20.00           Írland-Armenía
 
Miðvikudagur 26.apríl                kl.16.30           Tyrkland-Lúxemborg
                                           kl.20.00           Ísland-Írland
 
Fimmtudagur 27.apríl                kl.20.00           Armenía-Ísland
 
Föstudagur 28.apríl                  kl.16.30           Lúxemborg-Armenía
                                            kl.20.00           Tyrkland-Írland
 
Laugardagur 29.apríl                 kl.16.30           Írland-Lúxemborg
                                            kl.20.00           Ísland-Tyrkland
 
  
 
Reykjavík 23.apríl 2006,
 
Viðar Garðarsson formaður ÍHÍ
s. 696 6669
Einar Eyland framkvæmdastjóri keppninnar
s. 695 1128
www.ihi.is