Ágæta áhugafólk um íshokkí.
Það hefur varla farið fram hjá neinum sú neikvæða umræða sem dunið hefur á íþróttinni okkar í fjölmiðlum undanfarið. Stjórn sambandsins harmar og fordæmir öll þau neikvæðu ummæli sem fallið hafa í nokkrum viðtölum. Það er engum til sóma að ráðast gegn ákveðnum persónum innan hreyfingarinnar með skítkasti og ásökunum um óheiðarleika.
Það er eðlilegt að upp komi ágreiningur og einstaklingar hafi ólíkar skoðanir á vissum hlutum og/eða atburðum hvort sem er í starfsemi félaganna eða í störfum sambandsins. Það er engin hafin yfir gagnrýni en þá er gott að hafa hugfast að sú gagnrýni sé málefnaleg en hvorki meiðandi né móðgandi.
Innan okkar raða eru nokkrir mikilvægir aðilar sem fá oftar en ekki á sig óvægna gagnrýni. Þetta eru dómarar sambandsins sem vinna gríðarlega erfitt og mikilvægt starf. Við getum engan veginn án þeirra verið. Stjórn sambandsins lítur það mjög alvarlegum augum þegar leikmenn eða starfsmenn félaganna ráðast gegn ákveðnum dómurum og nafngreina þá á opinberum vettvangi. Vissulega gera dómarar mistök í hita leiksins rétt eins og leikmenn liðanna. Við það verður ekki unað að þeir séu sakaðir um óheilindi í störfum sínum.
Hreyfingin okkar er borin uppi af sjálfboðaliðum sem starfa af hugsjón og ástríðu fyrir íþróttinni okkar. Það er aðdáunarvert hversu margir eru tilbúnir að nota frítíma sinn íþróttinni til framdráttar. Án ykkar væri ekki hægt að halda þessu starfi gangandi. Þess vegna er það mjög mikilvægt að við vöndum okkur í allri umræðu.
Íshokkí er frábær íþrótt sem á framtíðina fyrir sér ef okkur ber gæfa til þess að fara fram með jákvæðri og uppbyggilegri umræðu. Með því að vinna öll að sama markmiði trúum við að hægt verði að gera frábæra hluti til framtíðar.
F.h stjórnar ÍHÍ
Árni Geir Jónsson og Helgi Páll Þórisson