Föstudagur 5.apríl
Úrslit gærdagsins Kórea - Ísland 4-1
Það var jafn og skemmtilegur leikur á að horfa milli Íslands og Kóreu í gær, markatalan eiginlega ekki lýsandi fyrir leikinn. Við áttum við að etja sterkasta markmann mótsins og leikmenn sem eru snöggir á svellinu og vel spilandi. Stelpurnar okkar áttu ágætan leik en gerðu örfá mistök sem andstæðingurinn refsaði fyrir um leið. Kristín Ingadóttir skoraði mark Íslands eftir stoðsendingar frá Steinunni Sigurgeirsdóttur og Söruh Smiley. Guðlaug Þorsteinsdóttir var valin maður leiksins í okkar liði. Allar voru skárri af háfjallaveikinni enda kaldari dagur og kaldara í skautahöllinni.
Þrátt fyrir tapið þá berum við höfuðið hátt og erum jákvæð. Mikilvægt er að allar eru heilar og hraustar og verða tilbúnar í næsta leik sem verður gegn heimaliði Spánverja annað kvöld. Lokaleikurinn er síðan við Belga á sunnudag. Í dag er frídagur og liðunum var boðið upp á rútuferð til Barcelona, sem öll þáðu nema íslenska liðið og heimaliðið. Lars þjálfari taldi ekki rétt að þreyta stelpurnar með langri rútuferð, túristalabbi og búðarápi heilan dag, heldur væri æfing og hvíld það sem kæmi sér best fyrir lokaátökin. Það er allt lagt í sölurnar hér til að ná sem bestum árangri og ekki hægt að saka þær um að hafa ekki gert sitt besta.
Ástandið eftir Króataleikinn, tveir læknar, starfsmenn og súrefniskútur
Íslenska liðið í byrjun leiks gegn Suður-Kóreu
Tekist á í leik gegn Kóreu
Katrín Ryan og Guðrún Blöndal
Guðlaug Þorsteinsdóttir markmaður tekur við hamingjuóskum liðsins
eftir að hafa verið valin maður leiksins í íslenska liðinu