Ynjur Íslandsmeistarar 2017

Ynjur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í kvöld með 4 – 1 sigri á Ásynjum í fjörugum leik.  Sem fyrr var allt í járnum á milli liðanna framan af og fóru Ásynjur betur af stað en þrátt fyrir það voru það Ynjur sem skoruðu fyrsta mark leiksins og það eina í 1. lotu.  Í 2. leikhluta jöfnuðu Ásynjur metin en Ynjur náðu aftur forystunni skammt fyrir lok lotunnar.

Í 3. lotu réðu svo Ynjur lögum og lofum á ísnum og bættu við tveimur mörkum og tryggðu sér verðskuldaðan 4 – 1 sigur.

Þar með lauk einni mest spennandi úrslitakeppni í kvennahokkí í áraraðir.  Ásynjur voru sterkara liðið á tímabilinu og töpuðu aðeins einum leik en þegar líða fór á tímabilið fóru leikmenn að detta út vegna meiðsla.  Á sama tíma urðu Ynjur betri og sterkari eftir því sem leið á tímabilið og toppuðu á hárréttum tíma.

Íshokkísamband Íslands óskar bæði Ynjum og Ásynjum til hamingju með árangurinn í vetur.  Meðfylgjandi mynd var tekin af sigurvegurunum og nýkrýndum Íslandsmeisturum í leikslok.  Myndina tók Elvar Pálsson.

 

Mörk / Stoðsendingar

Ynjur

Sunna Björgvinsdóttir 2/0

Silvía Björgvinsdóttir 1/1

Hilma Bóel Bergsdóttir 1/0

Saga Margrét Blöndal 0/1

Apríl Orongan o/1

 

Ásynjur

Alda Arnarsdóttir 1/0