Víkingar - SR umfjöllun

Úr leik gærkvöldsins                                                                                                          Mynd: Sigurgeir Haraldsson

Víkingar og Skautafélag Reykjavíkur áttust við á íslandsmótinu í gærkvöld og fór leikurinn fram á Akureyri. Leiknum lauk með sigri SR-inga sem gerðu 4 mörk gegn einu marki Víkinga. Eins og áður hefur komið fram er keppnin um sæti í úrslitakeppninni geypilega hörð að þessu sinni og hvert einasta stig skiptir máli.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrstu lotu og skiptust þau á að sækja. Lengi vel var lotan markalaus en þegar um fimm mínútur lifðu af henni, nýttu SR-ingar sér að vera einum fleiri á ísnum en markið gerði Arnþór Bjarnason. Staðan því 0 - 1 eftir fyrstu lotu og leikurinn galopinn.

Í annarri lotunni juku SR-ingar sóknarþungann og uppskáru tvö  mörk. Arnþór Bjarnason var aftur á ferðinni í fyrra skiptið en síðara markið átti Björn Róbert Sigurðarson. Bæði mörkin komu eftir að SR-ingar nýttu sér að hafa liðsmun á ísnum.  Staða SR-inga því orðin nokkuð vænleg en Rúnar F. Rúnarsson kom Víkingum inn í leikinn með laglegu marki skömmu síðar. Staðan eftir aðra lotu því 1 – 3 og leikurinn enn galopinn.

Einungis eitt mark var því skorað í þriðju lotunni og þar var á ferðinni Pétur Maack fyrir SR-inga og kom markið skömmu fyrir leikslok.

Baráttan um sæti í úrslitum mun því  halda áfram frameftir mánuðinum en næsti leikur í meistaraflokki karla er leikur SR og Bjarnarins og fer hann fram næstkomandi þriðjudag.

Mörk/stoðsendingar Víkingar:

Rúnar F. Rúnarsson 1/0

Refsingar Víkingar: 34 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:

Arnþór Bjarnason 2/0
Björn Róbert Sigurðarson 1/0
Pétur Maack 1/0
Steinar Páll Veigarsson 0/2
Daniel Kolar 0/1
Robbie Sigurdsson 0/1
Svavar Steinsen 0/1
Gauti Þormóðsson 0/1

Refsingar SR: 12 mínútur

HH