26.07.2010
Vikulangar þjálfunar- og æfingabúðir kvenna á vegum IIHF Alþjóða- og Finnska íshokkísambandsins voru haldnar í Vierumaki í Finnlandi í síðustu viku. Ísland átti 5 þátttakendur, 3 leikmenn og 2 fulltrúa á málstofu fyrir leiðtoga. Þetta er í þriðja sinn sem þessar æfingabúðir eru haldnar en þær eru haldnar annað hvert ár. Þátttakendur voru um 270 að þessu sinni frá 36 löndum og tóku þátt í þjálfun og fræðslu fyrir leikmenn, þjálfara, dómara, liðs- og tækjastjóra og leiðtoga.
Vikan er fljót að líða í fyrsta flokks aðstæðum en Vierumäki er þorp með íþróttaháskóla, hótel og gistiaðstöðu, skautahöllum, golfvelli, sundlaugum og ýmis konar annarri íþróttaaðstöðu einstaklinga og fjölskyldur. Díana, Silja og Guðrún, allar frá Skautafélagi Akureyrar fóru á íshokkíæfingu á hverjum degi og spiluðu einnig leik hvern dag. Þær voru í sitthvoru liðinu og með sitthvorn herbergisfélagann og kynntust þ.a.l. mörgum stúlkum frá ótal löndum. Þær stóðu sig með prýði og voru landi og þjóð til sóma og komu heim reynslunni ríkari, tilbúnar til að takast á við áskoranir næsta tímabils.
Íshokkí kvenna er sú íþrótt sem vex hvað hraðast í heiminum og eru í dag tæplega 170.000 stelpur að spila íshokkí . Stærstu þjóðirnar eru Bandaríkin og Kanada en síðan eru það Evrópuþjóðirnar Svíþjóð, Finnland, Sviss og Rússland sem koma næst á eftir. Ísland er í fjórðu deild og er gestgjafi fyrir næstu heimsmeistarakeppni sem verður haldin í Laugardalshöll í lok mars 2011. Þjóðirnar sem sækja okkur heim eru Suður Afríka, Eistland, Rúmenía, Norður-Kórea og Nýja Sjáland. Íslenska liðið vann alla sína leiki í síðustu keppni árið 2008 og við höldum inn í æfingartímabil bjartsýn á gott gengi í vor. Mikil tilhlökkun og eftirvænting ríkir hjá öllum stúlkunum sem sjá fram á möguleikann að vera valdar í landsliðið og má segja að þátttaka í alþjóðlegri keppni sé sú gulrót sem gefi bestan árangur í að viðhalda vilja og ánægju við æfingar og keppni hjá ungum stúlkum í íshokkíi.
MÓ