Úrslitakeppni karla hefst á morgun, fimmtudag, þegar Víkingar og Björninn mætast í Skautahöllinni á Akureyri og hefst leikurinn klukkan 19.30. Það lið sem verður fyrr til að vinna þrjá leiki mun hampa íslandsmeistaratitlinum og því spennandi dagar framundan hjá hokkíáhugamönnum.
Þessi sömu lið léku til úrslita á síðasta tímabili en þá þurfti fimm leiki til að skera úr um hvort liðið hefði sigur. Það voru að lokum Víkingar sem höfðu sigur í einvíginu en núverandi þjálfari Bjarnarins, Lars Foder lék þá stórt hlutverk hjá Víkingum. Víkingar hafa verið á mikilli siglingu þetta tímabilið. Liðið hefur unnið fjórtán af sextán leikjum sínum, tapað einum leik og gert eitt jafntefli þar sem stig tapaðist á gullmarki. Björninn hefur unnið ellefu af sínum leikjum, tapað fjórum og gert eitt jafntefli þar sem þeir höfðu aukastigið á gullmarki.
Eitthvað hefur verið um meiðsli í báðum liðum í síðustu leikjum. Hjá Víkingum hafa Gunnar Darri Sigurðsson og Sigmundur Rúnar Sveinsson verið frá en hjá Bjarnarmönnum þeir Róbert Freyr Pálsson, Gunnar Guðmundsson og Bóas Gunnarsson. Ekki er enn komið í ljós hverjir þessara leikmanna verða klárir fyrir slaginn. Víkingar hafa, einsog áður sagði, náð góðum úrslitum sem verður að teljast gott fyrir þá á meðan Björninn hefur úr meiri mannskap að velja sem gæti komið þeim til góða ef keppnin dregst á langinn.
Leikurinn verður sýndur beint á N4 sem er á fjölvarpinu og á netinu og einnig verður textalýsing hjá okkur einsog vanalega.
Mynd: Elvar Freyr Pálsson
HH