Miðvikudagur rann upp og aftur var kominn frídagur. Leikmenn fengu því að sofa út og voru ekki vaktir fyrr en rétt eftir klukkan átta. Dagurinn leið einsog við var að búast á frídegi en liðið átti æfingu klukkan 11.15. Áður en æfingin hófst var þó myndataka og liðinu því stillt upp og smellt af. Þjálfararnir voru svosem ekkert hoppandi ánægðir með æfinguna, leikmenn virtust vera svolítið á hælunum. Í samráði við gestgjafanna var unnið að skoðunarferð seinni part dagsins en þegar á átti að reyna fékkst ekki rúta í verkefnið þannig að mið dagurinn fór í rólegheit. Þjálfarar nýttu síðan seinni partinn til að taka hvern og einn leikmann á sinn fund og ræða við þá málin en hver fundur tók um 10 – 20 mínútur. Um kvöldið var busun nýliða sem fólst í því að þeir þurftu að sýna dansatriði fyrir þá eldri en á meðan funduðu þjálfarar og fararstjóri um hin ýmsu mál.
Fimmtudagurinn var síðan tekinn snemma. Rúllað niður á svell á létta æfingu til að koma blóðinu af stað en framundan var leikur gegn Serbíu sem var klukkan 13.00. Rétt einsog á æfingunni daginn áður átti liðið ekki sinn besta leik og líklegast þann versta fram að þessu. Serbar fóru með sigur af hólmi með fjórum mörkum gegn tveimur og áttu sigurinn sannarlega skilinn. Að leik loknum var því ljóst að Ísland leikur í þriðju deild á næsta móti. Daníel Steinþór Magnússon og Bjarki Reyr Jóhannesson gerðu mörk íslenska liðsins. Leikmenn og liðstjórn var misjafnlega kát eftir tapið en svona eru íþróttirnar. Hádegismatur var snæddur klukkan fjögur og kvöldverður klukkan átta og bar fátt til tíðinda þar á milli. Leikmenn horfðu svo á leik spánverja og ástrala um kvöldið áður en haldið var í háttinn.
Kveðja frá Jaca
HH