Við leyfðum hokkí-manni og konu ársins að eiga forsíðuna á ÍHÍ síðunni í gær og óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju með titlana. En nú að keppninni í Jaca. Þegar komið er að öðrum degi eru allir hlutir á mótsstað komnir í nokkuð fastar skorður og uppfrá því er þetta meira og minna endurtekið efni. Einsog ég minntist á í síðasta pistli hafði þjálfarinn minnst á að bæta þyrfti agann innan liðsins og það kom því ekki á óvart að menn mættu á réttum tíma í morgunverð, vonandi allir eftir að hafa farið í háttinn snemma kvöldið áður.
Stuttu síðar var haldið á æfingu en eftir hana virtist Tim þjálfari ekkert sérstaklega ánægður með gang mála. Liðið átti mið leik dagsins, þ.e. klukkan 16.30 en sá sem þetta skrifar var hinsvegar eftirlitsmaður á fyrsta leiknum þannig að leiðir skildu í bili. Liðið var síðan mætt niður í höll tímanlega fyrir leikinn gegn Belgum. Sá leikur endaði, einsog flestir vita, með sigri Belga sem gerðu sex mörk gegn tveimur mörkum okkar manna. Íslenska liðið byrjaði ekki mjög vel en óx ásmeginn þegar leið á fyrstu lotuna. Í annarri lotunni vorum við töluvert betri og að henni lokinni var staðan 2 – 2 og ágætis möguleikar í stöðunni. Þriðja lotan var hinsvegar frekar döpur, tapaðist 4 – 0 og liðsmenn íslenska liðsins ekkert sérstaklega upplitsdjarfir í leikslok. Mörk Íslands skoruðu þeir Elvar Freyr Ólafsson og Markús Darri Maack. Vel var staðið að báðum mörkunum og reyndar má segja það um öll mörkin sem liðið hefur skorað á mótinu. Að leik loknum var Ingþór Árnason valinn maður leiksins í íslenska liðinu.
Eftir kvöldmat var síðan haldið aftur upp í höll og horft á leik spánverja og serba. Spánverjar unnu leikinn 7 – 0 og enn hafa serbar ekki náð að skora mark á mótinu.
Morgunmatur var tekinn klukkan 8 í morgun og samkvæmt dagskrá þjálfara átti að henni lokinni að taka við æfingar utan íss. Tim ákvað hinsvegar að fella þær niður og gefa mönnum frí fram að hádegi. Greinilegt að agamálin eru á góðri leið, því enginn leikmaður hreyfði við mótmælum. Á meðan að liðið borðaði hádegismat fóru fararstjóri og þjálfari í boð hjá bæjarstjórn Jaca og skelltu í sig Tapas og sódavatni.
Góð klukkutíma æfing var síðan tekin um miðjan dag og kvöldmatur og kvöldfundur fylgdu í kjölfarið. Á morgun er leikur við Króata, sem þegar hafa tilkynnt að þeir eigi að vera deild ofar. Við munum gera það besta til að stríða þeim en ræs í fyrramálið er klukkan 06.20
Kveðja frá Jaca
HH