Annar dagur ferðarinnar reyndist mönnum misjafnlega erfiður og þá sérstaklega með tilliti til þess að vakna um morguninn og koma sér í morgunmat. En allt hafðist þetta nú á endanum. Morgunæfing var tekin sem gekk áfallalaust fyrir sig að öllu leyti nema hvað Bjarki Reyr fékk kylfuna frá liðsfélaga sínum í andlitið og þurfti á eftir smá lagfæringa við.
Hádegismaturinn var sirka næstur eftir æfingu og þaðan aftur niður í höll þar sem horft var á leik Belga og Ástrala en í honum fóru Belgar með sigur af hólmi. Belgarnir voru þó undir allt þar til ein mínúta var eftir af leiknum, náðu að jafna og síðan tryggja sér aukastigið með gullmarki fljótlega í framlengingunni. Eftir að hafa horft á leikinn var haldið heim á hótel þar sem menn hvíldu sig en klukkan fimm var borðaður kvöldmatur og síðan fóru menn að gera sig kláran í leik kvöldsins gegn Spáni.
Leikurinn gegn Spáni tapaðist með átta mörkum gegn þremur og í þetta skiptið var það einfaldlega betra liðið sem vann. Sigurinn var þó í stærra lagi en síðustu tvö mörkin sem við fengum á okkur voru svolítil skítamörk. Fyrirfram var vitað að spánverjarnir væru sterkir og ekki ólíklegt að það verði þeir sem berjist við króatana um hvort liðið fer upp um riðil. Spánverjarnir höfðu töluverða yfirburði í leiknum en eftir að hafa komist í 2 - 0 jafnaði íslenska liðið á stuttum kafla og greinilegt var á bekk andstæðinganna að mönnum þar var nokkuð brugðið. Mörk Íslands í leiknum skoruðu þeir Ingþór Árnason, Bjarki Reyr Jóhannesson og Guðmundur Þorsteinsson sem jafnframt var valinn maður leiksins í íslenska liðinu. Eftir leikinn fór Tim yfir það helsta í leiknum inn í búningsklefa en benti leikmönnum síðan á að það væri þeirra að passa uppá að hlutirnir væru í lagi innan liðsins. Að vakna og mæta á réttum tíma, borða vel og hvílast vel skipti máli í keppnum sem þessum. Á hótelinu beið síðan smá snarl fyrir svanga leikmenn og síðan var farið beint í háttinn.
HH