Landslið skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri var rétt í þessu að klára fyrstu æfingu sína hér í Jaca á Spáni. Ferðalagið gekk stórslysalaust en alls kom liðið úr fjórum áttum að þessu sinni. Lengsta ferðalagið áttu þeir Andri Már Helgason og Atli Snær Valdimarsson sem flugu frá Toronto en Jón Árni Árnason og Hafþór Andri Sigrúnarson beið öllu styttri ferð frá Osló og Stokkhólmi. Restin af liðinu flaug frá Keflavík í gegnum Kaupmannahöfn til Barcelona. Innritun í Keflavík gekk vonum framar og biðin á Kastrup var mátulega löng þannig að ekki var þar yfir miklu að kvarta. Við komuna til Barcolona kom í ljós að taska og kylfur Hafþórs Andra ekki skilað sér. Í ferð með hóp af þessari stærð þykir þetta svona mátulega mikið. Taskan hinsvegar skilaði sér áður en við yfirgáfum flugvöllinn en við bíðum enn eftir kylfunum. Íslenskt landslið hefur áður spilað í Jaca og þá lærðu menn að fjögurra tíma bíltúr með rútu án þess að snæða áður væri ekki það skynsamlegasa í stöðunni. Því var brunað á Burger King eftir flugvöllinn og þar skelltu menn í sig bita.
Klukkan tvö um nóttina var liðið síðan komið til Jaca og þá kominn tæplega sólahringur frá því að menn vöknuðu heima á Íslandi en þrátt fyrir það voru menn nú bara ótrúlega hressir. Hokkídótinu var komið fyrir niðrí höll áður en haldið var á hótel. Innritun þar gekk fljótt fyrir sig og að henni lokinni beið næturverður liðsmanna og mættu allir sem einn að fá sér bita þótt seint væri og síðan var haldið í háttinn.
Þjálfarateymið hafði gert breyingu frá áður boðaðri dagskrá og menn sváfu frameftir. Dagskrá dagsins hjá liðinu er svo þéttskipuð og allt í föstum skorðum hjá þeim Tim og Gulla. Farið verður í göngutúr, fundir með leikmönnum bæði öllu liðinu og svo sérstökum liðum innan liðsins. Einsog áður sagði var síðan tekin æfing og nú eftir kvöldmat eru fundir hjá liðinu en einnig fara farastjóri og þjálfarar á fundi á vegum mótshaldara.
Við gerum síðan okkar besta í að skella inn myndum á facebook síðu sambandsins þegar á liður.
Kveðjur frá Jaca.
HH