U20 - DAGBÓK - 7. FÆRSLA

Úr leik okkar manna við ástrali
Úr leik okkar manna við ástrali

Lokaleikur við Ástrala og heimferð

Síðasti leikur íslenska liðsins var við Ástralíu sem líkt og við voru með þrjú stig og því leikurinn úrslitaleikur um 4. sætið í keppninni.  Frekar var farið að draga af okkar strákum eftir leiki í keppninni, en þó tókst þeim að stjórna leiknum að mestu þó svo að mörkin létu á sér standa.  Á 11. mínútu skoraði Sturla Snær eftir stoðsendingar frá Andra Helga og Steinþóri.  Á seinni hluta og í lok leikhlutans höfðum við gert okkur seka um að fá tvo 10 mínútna dóma og ekki auðveldaði það okkur að geta keyrt alla okkar leikmenn á fullu.  Ástralir náðu að jafna leikinn á 5 mínútum í 2. leikhluta og þar við sat.  Í þriðja leikhluta sótti íslenska liðið látlaust og átti liðið 13 skot að marki Ástrala á meðan þeir komu aðeins 6 skotum á okkur.  Um tíma komust þeir ekki út úr varnarsvæði sínu.  Leikurinn endaði með 1-1 og því var farið í framlengingu.  Þá er fækkað um einn leikmann úr hvoru liði og spilað 4 á 4.  Áfram héldu okkar strákarnir að sækja en ekki vildi pökkurinn inn.  Þegar um tvær mínútur voru eftir braut einn leikmanna illa á Daníeli Steinþóri, en því miður hefndi Daníel fyrir brotið og fékk að fjúka með Ástralanum í boxið.  Eins og leikurinn hafði spilast er aldrei að vita hvernig leikurinn hefði þróast ef við hefðum náð að spila einum leikmanni fleiri síðustu tvær mínútur framlengingarinnar.  Þá var gripið til vítaskeppni þar sem hvort lið fær 3 skot.  Ástralir byrjuðu á því að skora úr sínu fyrsta skoti.  Andra Helga mistókst að skora úr sínu.  Nico varði síðan annað skot Ástrala og vonir kviknuðu hjá okkar mönnum.  Björn Róbert tók annað skot okkar náði að plata markmanninn í vitlaust horn en skot hans fór í stöngina.   Áströlum tóks svo að skora og tryggja sér aukastigið, en bæði fá 1 stig fyrir jafntefli og lið sem vinnur vítakeppnina eitt stig.  2-1 sigur Ástrala og 4. sætið þeirra.

Enn og aftur töpum við leik sem við áttum að gera betur í og maður eiginlega orðinn frekar pirraður að þurfa alltaf að stanglast á því, og maður farinn að hljóma eins og rispuð plata.  Til marks um þetta í þessum leik átti íslenska liðið 54 skot að marki, en Ástralar 24.

Eftir leik var komið að verðlaunaafhendingu.  Bjarki Reyr var valinn maður leiksins og Björn Róbert besti leikmaður íslenska liðsins í keppninni.

Eftir leik var úrslitaleikurinn leikinn við magnaða stemmingu 2.500 áhorfenda.  Kóreumenn unnu heimamenn verðskuldað 4-2 og afhenti Spánarprins fyrirliða kóreaska liðsins verðlaunin fyrir fyrsta sætið.  Eftir formlega afhendingar smellti DJ í höllinni Gangnam Style á fullu í kerfið og einn leikmanna liðins tók sólodans á skautum við lagið, áhorfendum til mikillar gleði.

Eftir úrslitaleikinn sem okkar strákar horfuðu á hópuðust fullt af áhorfendum að íslensku strákunum, aðallega kvenkyns og vildi fá myndir af sér með íslensku strákunum.  Hvað þetta varðar var íslenska liðið í efsta sæti með langflest stig í vinsældakeppninni.

Um kvöldið fengu strákarnir aðeins að kíkja út á lífið, en ótrúlegt var að sjá hvernig þessi litli vinalegi og rólegi bær, breyttist bara í hinn áhugaverðasta skemmtanalífs bæ.  Fjölmargir litlir barir og dansstaðir hér og þar og ótrúlega mikið af fólki miðað við ekki fleiri íbúa, en eins og áður hefur komið fram er mikið um skíðaferðamenn í bænum.

Heimferð var svo framundan og ekki fengu menn að sofa út og sumir fóru alls ekkert að sofa.  Steindór og Björn Róbert áttu langt ferðalag vestur um haf framundan.  Steindór á leið til Kanada þurfti að yfirgefa hópinn kl. 11 um kvöldið og Björn Róbert á leið til Bandaríkjana kl. hálf fjögur um nóttina.  Hópurinn á leið til Íslands lagði af stað til Barcelona kl. 7 um morguninn, en rútuferðin á flugvöllin þar tekur um 4,5- 5 tíma.  Flugið til London var kl. 14:20.  Flugið tók um 1 klst og 45 mínútur.  Flugið til Íslands var svo klukkan hálf níu og ekki er laust við að það hafi verið þreyttir strákar sem lentu í Keflavík um miðnættið.

Mótið að baki, árangur og úrslit hefðu getað verið ögn betri, verðlaunastæti var í sjónmáli, en leikmenn, þjálfari, fararstjórn og Íshokkísambandið verða að leggja ferðina inn í reynslubakann, muna hvað var vel gert og hvað vantaði á til að gera betur.  Ferðin að baki, en uppúr stendur að leikmann voru verðugir fulltrúar lands og þjóðar og var framkoma þeirra og hegðun til sóma.  Undirritaður þakkar öllum leikmönnum, þjálfurunum Lars og Jóa Leif, Óla „kvippara“ og Jóni fararstjóra fyrir skemmtilega ferð.  Þá er vert að minnast á hversu vel spænsku fararstjóranrnir Rakel og Keiki hugsuðu vel um okkur og gestrisni spánverjana mikil.

Takk fyrir mig

Sigurður Kr. Björnsson

Myndir úr leiknum við Ástrali:  http://www.iihf.com/competition/363/statistics.html