U20 - DAGBÓK - 5. FÆRSLA

Jón Þór fararstjóri og Jan-Ake Edvinsson frá IIHF
Jón Þór fararstjóri og Jan-Ake Edvinsson frá IIHF

Íslenska unglingalandsliðið í íshokkí U20 2014

Í dag mánudaginn 13. janúar er fyrri hvíldardagur af tveimur.  Lars þjálfari leyfði strákunum að sofa fram eftir og voru strákarnir glaðir með það eftir að hafa þurft að vakna „fyrir allar aldir“ undanfarna morgna.  Morgunmatur var tekinn kl. 10 og svo var tekinn klukkutíma ísæfing kl. 12:30.  Fyrir æfinguna var tekin hefðbundin liðsmynd og laumaði ritari hópsins símamyndavélinni til spænskrar aðstoðarkonu okkar og tók hún meðfylgjandi mynd og fá þið því smá forskot á sæluna áður en alþjóðasambandið birtir myndina eftir mót.

Um hádegið var formleg móttaka hjá bæjarstjóranum í Jaca þar sem fararstjórar liðanna mættu ásamt dómurum og helstu starfsmönnum.  Eftir ræðu bæjarstjórans, var fulltrúum liðana afhentir minjagripir um keppina og boðið svo upp á léttar veitingar.  Það er greinilegt að heimamenn leggja mikið að sér til að gera keppnina sem veglegasta og var þó nokkur fjöldi fjölmiðla manna viðstaddir móttökuna.   Mikið var lagt í byggingu íshallarinnar hér og reyna heimamenn að fá sem flesta vetrarviðburði í bæinn.    Þess má geta að upphaflega átti höllin að kosta 18 milljónir evra, en endaði í 32 milljónum evra er hún var byggð árið 2007.

U20 ára landslið Ísland 2014

Strákarnir héldu hins vegar upp á hótel eftir æfingu og fengu mat síðdegis.  Eftir það höfðu menn frítíma fram að kvöldmat kl. 20.  Flestir gengu niður í miðbæ Jaca, en frá hótelinu eru aðeins um 5 mínútna gangur að gamla miðbænum.   Nokkuð gott ástand er á hópnum, Aron hefur átt við veikindi að stríða líklega streptakokka og hefur læknir gefið honum viðeignandi lyf við því.   Kóreaska liðið er á sama hóteli og við og nú í kvöld sáttu menn beggja liða saman á ganginum á okkar hæð og eru strákarnir að spjalla saman.  Gaman að sjá hversu liðin virðast ná vel saman.

Á morgun er framundan leikur við heimamenn Spánverja og hefur verið vel mætt á leiki heimamanna, en um 1.500 manns hafa séð fyrstu leiki þeirra í hvort skiptið.  Spánverjar féllu niður úr 2.deild A og eru fyrir mót taldir sterkasta liðið.   Okkar menn eru staðráðnir í að gera sitt besta og náum við spila okkar leik, halda okkur frá refsiboxinu og spila með hjartanu, er allt mögulegt.  Leikurinn hefst kl. 20 að staðartíma eða klukkan 19 að íslenskum tíma.

ÁAAAAAAAAAAAAFRAM ÍSLAND

Sigurður Kr. Björnsson