U20 - DAGBÓK - 4. FÆRSLA

Björn Róbert valinn maður leiksins
Björn Róbert valinn maður leiksins

Góður sigur á Kína 8-1

Sunnudagurinn var tekinn snemma.  Tekin hálftíma ísæfing kl. 8:30 og framundan leikurinn við Kína kl. 13.  Kínverjar komu upp úr 3.deildinni og höfðu tapað sínum fyrsta leik við Ástralíu 3-5.  Það verður að segjast eins og er að við vorum sterkari á öllum sviðum og talar tölfræðin fyrir sig.  Íslenska liðið átti 55 skot að marki en hið kínverska aðeins 19.  Staðan var 3-0 eftir fyrsta leikhluta á sjöundu mínútu kom Brynjar Bergmann okkur yfir án stoðsendingar.  6 mínútum síðar skoraði Daníel Hrafn mark með góðu langskoti eftir stoðsendingar frá Bjarka Rey og Kára Guðlaugs.  Falur bætti svo við 3ja markinu á 17. mínútu eftir stoðsendingu Birni Róberti.

Okkar menn héldu áfram að sækja stíft á Kínverjana í 2. leikhluta og strax á fyrstu mínútu þess leikhluta tók Andri Helga „one-timer“ í slá og inn, stórglæsilegt mark.  Björn Róbert og Brynjar Bergmann með stoðsendingar.  Björn Róbert bætti við svo marki við tæpum tveimur mínútum síðar og var Daníel Steinþór hér með stoðsendingu.  Björn bætti svo við flottu marki tæpum  5 mínútum síðar og  var fyrirliðinn Ingþór með stoðsendingu.  Annars einkenndist 2. leikhluti af fjölmörgum brottvísunum Kínverjanna og einnig gerðu okkar menn sig seka um klaufaleg brot og þurftu líka að verma bekkin í refsiboxinu.  Staðan 6-0 eftir annan leikhluta og úrslitin eiginlega ráðin.

Okkar menn slökuðu aðeins á í þriðja leikhluta og Wu minnkaði muninn eftir 4 mínútur.  Ingþór bætti svo aftur í skorunina með góðu langskoti, þar sem Björn Róbert og Hafþór voru með stoðsendingar.  Rétt undir lokin setti Andri Helga aftur inn mark, þessu sinni án stoðsendingar.  Öruggur 8-1 sigur í höfn.

Eftir leikinn var haldið á hótelið aftur og snemmbúinn kvöldverður tekinn og horft á leik Íslands og Noregs á evrópumeistaramótinu í handbolta, en spænsk sjónvarpsstöð sýndi leikinn beint.  Sem sagt tvö landslið á ferði í dag sem voru landi og þjóð til mikils sóma

Maður leikins hjá íslenska liðinu var valinn Björn Róbert og hjá Kínverjum markmaður þeirra XIA.

Á morgun er frídagur og þá verður tíminn notaður til að hvílast og safna kröftum fyrir leikinn gegn heimamönnum, en þeir unnu Ástrali 4-1 í kvöld.  Mikill fjöldi áhorfenda hefur mætt á fyrstu tvo leiki gestgjafana og vonandi tekst okkur að spilla gleði þeirra í næsta leik.

Með kveðju frá Jaca

Sigurður Kr. Björnsson