U20 - DAGBÓK - 2. FÆRSLA

Lars að messa yfir strákunum á æfingunni í morgun
Lars að messa yfir strákunum á æfingunni í morgun

Undirbúningur fyrir fyrsta leik

Það blasti við okkur við okkur fagur föstudagur þegar við vöknuðum í morgun og eflaust vildu margir íslendingar skipta við okkur á þessum janúar „vetrardegi“  hér í Jaca, 14 stiga hiti og sól.  Ekki amalegt það, en að sögn heimamanna er þetta mjög óvengjulegt veðurfar og hitastig á þessum árstíma en við grátum það nú ekki.

Dagurinn hófst með morgunmat og að því loknu var arkað niður að skautahöll í blíviðrinu en ekki er nema 5 mínútna gangur frá hótelinu að henni.  Tekið var vel á því, en alls við fengum klukkutíma á ísnum að þessu sinni.  Eftir það var haldið aftur á hótelið og tekinn góður hádegismatur.  Strákunum var síðan gefið frí til klukkan þrjú, en þá var haldið í keilu sem annar af spænsku fararstjórunum okkar, sem eru okkur til halds og traust, útvegaði okkur.  Þau eru tvö sem spænska sambandið útvegar okkur, Rakel og Keiko, sem ekkert eru annað en almennilegheitin uppmáluð,  þó svo að ensku kunnátta þeirra sé takmörkuð.  Auk þess sem Keiko hefur ekkert heyrt af nafna sínum háhyrningnum, sem lék sér við uppblásna blöðru á Íslandi áður en hann hélt til Norges þar sem hann mætti örlögum sínum.  Þess má geta að Daníel Steinþór sýndi meistaratakta í keilunni og varð stigahæstur á undan Bjarka Rey.

Kvöldið hjá leikmönnum var svo rólegt og svefninn tekinn snemma, enda fyrsti leikur mótsins framundan.  Hins vegar nóg að gera hjá þjálfurum og fararstjórn, því allir undirbúningsfundir fyrir mótið voru haldnir um kvöldið.  Þá var nóg að gera hjá Jóni fararstjóra við að versla á sig föt og aðrar nauðsynjar, þvi ekkert bólar en á töskunni góðu sem varð viðskila við okkur í London.

Fyrsti leikur á morgun, allir klárir í slaginn, einhverjar smá hita og kvefpestir, en törfameðul eins og Mímir frá Kollu grasalækni ásamt öðrum fæðubótarefnum voru sett í viðkomandi.   Stutt ísæfing verður tekin rétt fyrir átta í fyrramálið og svo leikurinn kl. 13, sem er kl. 12 að íslenskum.  Því miður eru leikirnir ekki sýndir á netinu, en hægt er að fylgjast með live uppfærslu á vef Íshokkísambandins.

AAAAAÁFRAM ÍSLAND!

Sigurður Kr. Björnsson