Sigurganga U18 ára kvennaliðsins heldur áfram!!
Annar leikur íslenska stúlknaliðsins okkar var í dag gegn Belgum. Þetta er lið sem við höfum spilað við nokkru sinnum áður. Á síðasta HM unnum við þá naumlega 1-0. Því var nokkur spenna fyrir þennan leik.
Það voru ekki liðnar nema tæpar sjö mínútur þegar Friðrika Magnúsdóttir opnaði markareikning Íslands eftir stoðsendingu frá Sólrúnu Össur. Það var svo á tímanum 16:43 sem Friðrika setti annað mark sitt og í þetta sinn var stoðsendingin frá Kolbrúnu Björnsdóttur og mínútu seinna var það Kolbrún Björns sem bætti við þriðja marki Íslands eftir stoðsendingar frá Friðriku og Sórúnu Össur. Þægileg staða þegar farið var inn í leikhlé.
Eftir um fimm mínútna leik í öðrum leikhluta skoraði Eva Hlynsdóttir 4. mark Íslands eftir stoðsendingar frá Eyrúnu Garðarsdóttir og Ragnheiði Ragnarsdóttur. Fjórum mínútum síðar átti síðan Magdalena Sulova 5. markið eftir stoðsendingu frá Bríeti Friðjónsdóttur. Dagný Teitsdóttir lokaði síðan öðrum leikhluta með góðu marki á 38 mínútu eftir stoðsendingu frá Heiðrúnu Rúnarsdóttur. Yfirburðir okkar stúlkna mikill, sem sést best á því að í þessum tveimur leikhlutum þá áttum við 29 skot á mark sem gáfu 6 mörk en Belgarnir náðu einungis 7 skotum á markið okkar og tókst ekki að skora.
Friðrika Magnúsdóttir innsiglaði síðan stórsigur á Belgum með marki þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.
Í tölum var þetta svona. Friðrika Magnúsdóttir 2/2, Kolbrún Björnsdóttir 2/1, Magdalena Sulova 1/0, Eva Hlynsdóttir 1/0, Dagný Teitsdóttir 1/0, Sólrún Assa Arnardóttir 0/3, Bríet Friðjónsdóttir 0/1, Ragnhreiður Ragnarsdóttir 0/1, Heiðrún Rúnarsdóttir 0/1.
Skot á mark 46:9 (16:1, 13:6, 17:2) algerir yfirburðir eins og þessar tölur sýna. Sólrún Assa Arnardóttir #17 var valin maður leiksins í leikslok.
Það er gaman að minnast þess í lokin að á síðasta HM unnum við nauman sigur á liði Belga með aðeins einu marki. Þetta er því ákveðin vísbending um miklar framfarir.