Í kvöld var leikinn síðasti leikur okkar í undanrásum, gegn Tyrkjum. Við vorum búnir að tryggja okkur sæti í undanúrslitum fyrir leikinn, þannig að fyrir okkur skipti hann ekki miklu máli, nema að hópurinn var með markmið sitt fyrir þessa keppni á hreinu. VIÐ ÆTLUM OKKUR AÐ VINNA ALLA OKKAR LEIKI.
Þegar hópurinn lokaði augunum til þess að sjá fyrir sér Íslenska fánanum lyft upp og þjóðsönginn leikinn, var alveg ljóst að Tyrkir yrðu ekki teknir neinum vettlingatökum. Hér voru mættir 20 einbeittir afkomendur víkinga, í sjálfan Miklagarð til þess að sýna innfæddum hvar Davíð keypti ölið.
Þegar sjö og hálf mínúta var liðinn af fyrsta leikhluta braut Orri Blöndal ísinn og skoraði glæsilegt mark. Egill Þormóðsson og Ólafur Björnsson bættu síðan við sínu markinu hvor á rúmlega tveggja mínútna kafla. Þannig að um miðjan leikhlutann vorum við komnir í þægilega stöðu þremur mörkum yfir. Þannig hélst staðan heilar sex mínútur inn í annan leikhluta.
Raunar voru fyrstu 6 mínútur annars leikhluta okkar lélegasti kafli leiksins. Við gáfum eftir svæði sem við höfðum stjórnað og fórum niður á þeirra hraða. Tyrkir gengu á lagið og skoruðu á okkur tvö mörk og voru komnir inn í leikinn aftur.
Upp rennur þrítugasta og þriðja mínúta og mínir menn búnir að átta sig á því að þeir stjórnuðu þessum leik en ekki Tyrkir. á 44 sekúndna kafla (já bara 44 sekúndum) röðuðu þessir snillingar inn þremur mörkum á Tyrkina. Fyrst Matthías Máni, svo Gunnar Darri og loks Jói Leifs. Áður en Tyrkir höfðu náð að átta sig alveg á því hvað þetta hvíta var sem geystist um svellið var staðan orðin 6-2 og við aftur komnir með leikinn á okkar vald. Eftir þetta var aldrei spurning um hvort liðið mundi sigra heldur bara hvort að heimamenn næðu að skora fleiri mörk á okkur.
Í þriðja hluta bættu síðan Egill og Ólafur báðir við marki (þeirra beggja númer 2 í leiknum). Leiknum lauk með öruggum sigri okkar drengja 8-2.
Ólafur Björnsson var valinn maður leiksins en hann var án efa að spila sinn besta leik á mótinu. En eins og í fyrri leikjum var þetta sigur liðsheildarinnar allrar. Frábær hópur.
Daníel Jóhannsson var í markinu allan leikinn í dag og stóð sig með stakri prýði. Varði 27 af þeim 29 skotum sem hann fékk á sig í leiknum.
Það var ótrúlega magnað augnablik hér í dag þegar Íslenska fánanum var lyft upp við enda svellsins og þjóðsöngurinn okkar glumdi hér stafa á milli. Í forgrunninum stóðu hnípnir Tyrkir sem höfðu verið lagðir á heimavelli hér í Istanbul.
Nánari tölulegar upplýsingar um leikinn og riðilinn okkar er að finna á vef Alþjóða Íshokkísambandsins. Eða hér til hliðar með því að smella á rauða letrið HM U20
Nýjar myndir bættust við eftir daginn á þessari slóð.