Úr leik SR og Bjarnarins á síðasta keppnistímabili. Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir.
Nú fer að styttast í að keppnistímabilið í íshokkí fari á fulla ferð. Þetta árið var þó Hokkídagurinn mikli sem að mörgu leyti markaði upphaf tímabilsins en hann var haldinn í skautahöllunum þremur á laugardaginn var. Aðsóknin var með besta móti í allar hallir og vonandi er þessi góða byrjun bara vísirinn að því sem koma skal í vetur.
Keppnin á íslandsmótinu hefst síðan á morgun með leik Ynja og Ásynja sem fram fer á Akureyri. Þegar íslandsmótinu lýkur hafa verið leiknir tæpir 260 leikir í hinum ýmsu flokkum. Að koma mótaskrá saman fyrir alla þessa viðburði getur því orðið þrautinni þyngri. Mótaskráin liggur nú fyrir en hana má finna hérna hægra meginn á síðunni. Mótaskráin hefur þó ekki verið formlega samþykkt af höllunum og því gæti orðið einhverjar breytingar á henni þegar líður á árið þó reynt verði að halda þeim í lágmarki.
HH