Frá leik liðanna í gærkvöld Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir
Skautafélag Reykjavíkur og Björninn léku í gærkvöldi í meistaraflokki karla. Leikurinn fór fram í Laugardalnum og lauk með sigri SR-inga sem gerðu 5 mörk gegn 3 mörkum Bjarnarmanna. Með sigrinum styrktu SR-ingar stöðu sína á stigatöflunni en allt er ennþá opið um hvaða lið leika til úrslita í mars.
Ágætis hraði var í fyrstu lotu leiksins en greinilegt var að bæði lið vildu fara varlega inn í leikinn og varast að fá á sig mörg mörk. Lotan endaði markalaus.
Í annarri lotunni fóru hlutirnir hinsvegar að gerast hvað markaskorun áhrærði. Fljótlega í byrjun lotunnar kom Robbie Sigurdson SR-ingum yfir með marki eftir dómarakast í varnarsvæði Bjarnarmanna. Um miðja lotuna svöruðu Bjarnarmenn hinsvegar fyrir sig og á tíu sekúndna kafla skoraði Ólafur Hrafn Björnsson tvö mörk og þeir því komnir yfir. Fjörið hélt áfram og Daniel Kolar jafnaði metin fyrir SR-inga þegar þeir voru manni fleiri á ísnum fjórum mínútum síðar. Bjarnarmenn áttu hinsvegar lokaorð lotunnar með marki frá Fali Birki Guðnasyni þegar um fimm mínútur lifðu lotuna. Nokkuð sanngjörn staða enda voru Bjarnarmenn gríðarlega vinnusamir í lotunni.
Ágætis jafnræði var með liðunum í byrjun þriðju lotunnar en fljótlega náðu SR-ingar yfirhöndinni. Björn Róbert Sigurðarson jafnaði metin fyrir þá fyrir miða lotu og þegar um þrettán mínútur voru liðnar af lotunni kom Egill Þormóðsson þeim yfir. Bæði mörkin komu eftir að Bjarnarmenn höfðu misst mann af velli. Það var svo fyrrnefndur Björn Róbert sem innsiglaði sigur SR-inga tæpum 3 mínútum fyrir leikslok.
Mörk/stoðsendingar SR:
Björn Róbert Sigurðarson 2/0
Daniel Kolar 1/2
Robbie Sigurdsson 1/1
Egill Þormóðsson 1/0
Gauti Þormóðsson 0/2
Snorri Sigurbjörnsson 0/1
Refisngar SR: 4 mínútur.
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Ólafur Hrafn Björnsson 2/0
Falur Birkir Guðnason 1/0
Matthías Skjöldur Sigurðsson 0/1
Gunnar Guðmundsson 0/1
Brynjar Bergmann 0/1
Steindór Ingason 0/1
Refsingar Björninn: 20 mínútur