SA Víkingar tóku í gærkvöld á móti UMFK Esju á Akureyri og lauk leiknum með sigri Esju sem gerðu fimm mörk gegn tveimur mörkum SA Víkinga. Segja má að nokkur breyting hafi orðið hjá báðum liðum hvað varðar mörk fengin á sig, því fyrir þennan leik höfðu Víkingar fengið á sig að meðaltali 3,2 mörk í leik á meðan Esja hafði fengið á sig fimm mörk í hverjum leik.
Esjumenn komust yfir strax nákvæmlega ein mínúta var liðin af fyrstu lotu með marki frá Kole Bryce en áður en lotan var hálfnuð jafnaði Ben DiMarco leikinn fyrir heimamenn. Esja kom sér hinsvegar í þægilega stöðu með tveimur mörkum þegar langt var liðið á lotuna. Fyrra markið átti Hjörtur Geir Björnsson þegar liðið hafði yfirtölu á isnum en það siðara Egill Þormóðsson.
Önnur lotan var öllu rólegri hvað markaskorun áhrærði en Sturla Snær Snorrason gerði eina mark lotunnar fyrir Esju um hana miðja.
Fljótlega í þriðju lotunni minnkaði hinsvegar Ben DiMarco muninn fyrir Víkinga sem eftir það sitt ýtrasta til að minnka muninn enn frekar. Undir lokin tóku Víkingar markmann sinn, Rhett Vossler af velli, en að þessu sinni skilaði það ekki tilætluðum árangri því Egill Þormóðsson skoraði í autt markið stuttu fyrir leikslok.
Mörk/stoðsendingar SA Víkingar:
Ben DiMarco 2/0
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Refsingar SA Víkingar: 10 mínútur
Mörk/stoðsendingar UMFK Esja:
Egill Þormóðsson 2/2
Kole Bryce 1/0
Pétur Maack 1/0
Hjörtur Geir Björnsson 1/0
Einar Sveinn Guðnason 0/1
Róbert Freyr Pálsson 0/1
Refsingar UMFK Esja: 8 mínútur.
Mynd: Elvar Freyr Pálsson
HH