Björninn bar í gærkvöld sigurorð af SA Víkingum með fjórum mörkum gegn þremur en leikurinn fór fram á Akureyri. Bæði þurfti til framlengingu, vítakeppni og vítabráðabana til að knýja fram úrslit.
Mikið gekk á á fyrstu fimm mínútum leiksins því þá litu þrjú mörk dagsins ljós. Víkingar komust yfir með marki frá Sigurði S Sigurðssyni en Bjarnarmenn svöruðu með tveimur mörkum frá þeim Jóni Árna Árnasyni og Elvari Ólafssyni en báðir voru vel staðsettir á vítateig þegar mörk þeirra komu.
Eftir það létu liðin gott heita í markaskorun allt þangað til langt var liðið á aðra lotu en þá jafnaði fyrrnefndur Sigurður leikinn fyrir Víkinga eftir stoðsendingu Jussi Sipponen.
Víkingar komust yfir í þriðju lotu með marki frá Orra Blöndal eftir að hann komst í gegn með tvo Bjarnarmenn á hælunum. Skömmu fyrir leikslok jafnaði Úlfar Jón Andrésson metin með ágætis skoti auk þess sem markmaður Víkinga var alveg blindaður.
Framlenging því staðreynd en hvorugu liðinu tókst að skorta og þvi farið í vítakeppni. Fyrstu þrjú víti beggja liða fóru í súginn og því vítabráðabani en í honum tryggði Andri Már Helgason Birninum aukastigið sem var í boði.
Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:
Sigurður S Sigurðsson 2/0
Orri Blöndal 1/0
Jussi Sipponen 0/1
Heiðar Örn Kristveigarson 0/1
Refsingar SA Víkinga: 14 mínútur
Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:
Jón Árni Árnason 1/1
Elvar Ólafsson 1/0
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Edmunds Induss 0/1
Falur Birkir Guðnason 0/1
Andri Már Helgason 0/1
Refsingar Bjarnarins: 16 mínútur
Mynd: Elvar Freyr Pálsson
HH