SA Valkyrjur - Björninn umfjöllun

SA Valkyrjur og Björninn léku á laugardagskvöldið í meistaraflokki kvenna. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði tvö mörk gegn einu marki Valkyrja.

Leikurinn var mjög spennandi frá fyrstu mínútu til þeirrar seinustu. Fyrsta mark leiksins kom í 1. leikhluta en þá skoraði Birna Baldursdóttir Blakkona ársins fyrir Valkyrjur eftir að hafa leikið ein í varnarsvæði Bjarnarins með 4 leikmenn Bjarnarins í kringum sig. Varnarmaður Bjarnarins og fyrirliði Elva Hjálmarsdóttir jafnaði leikinn með lúmsku skoti frá bláu línunni með stoðsendingu frá Sigríði Finnbogadóttur.

Í öðrum leikhluta var allt í járnum og bæði liðin áttu góð færi og mörg skot á mark en leikhlutinn endaði þó 0-0.

Í þriðja og seinasta leikhlutanum voru liðin staðráðin í að sýna sitt besta en þessi lið mætast í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn sem hefst 12.mars. Það voru Bjarnarstúlkur sem tryggðu sér sigurinn þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum með marki frá aðstoðarfyrirliðanum Hönnu Rut Heimisdóttir með stoðsendingu frá Flosrúnu Vöku Jóhannesdóttur. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum tóku Valkyrjur markmann sinn út af og bættu við 6. sóknarmanninum en vörn Reykvíkinga var gríðarsterk með Karítas Halldórsdóttur markmann í markinu sem átti mjög góðan leik. Leikmenn Valkyrja áttu ívið fleiri skot á mark en Björninn eða 35 á móti 25. 

 
Mörk/stoðsendingar SA Valkyrjur:

Birna Baldursdóttir 1/0
Bergþóra H. Bergþórsdóttir 0/1

 
Refsingar SA Valkyrjur: 4 mínútur

Mörk/stoðsendingar Björninn:


Elva Hjálmarsdóttir 1/0

Hanna Rut Heimisdóttir 1/0
Sigríður Finnbogadóttir 0/1
Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 0/1
 
Refsingar Björninn: 6 mínútur

Mynd: Sigurgeir Haraldsson