18.01.2010
Skautafélag Akureyrar bar sigurorð af Skautafélagi Reykjavíkur þegar liðin mættust á laugardagskvöld. Úrslit leiksins urðu 6 – 0.
Rétt einsog í mörgum fyrri leikjum þessara félaga áttu SA-menn töluvert fleiri skot á mark SR-inga. Það hefur þó ekki alltaf dugað þeim til sigurs gegn SR-ingum en í þetta skiptið dugði það vel og vendilega.
Ekkert var skorað í fyrstu lotu en strax í byrjun annarrar lotu gerði Josh Gribben mark fyrir SA-menn. Orri Blöndal, Jóhann Leifsson og Jón B. Gíslason bættu svo við mörkum áður en lotunni lauk og staðan því orðin 4 – 0.
Í þriðju og síðustu lotunni bætti Jóhann við sínu öðru marki og Helgi Gunnlaugsson kórónaði svo stórsigur SA-manna með marki þegar þriðja lotan var hálfnuð.
Greinilegt var að SA-menn voru fullir sjálfstrausts í leiknum. Liðið náði að nýta sér vel þegar þeir voru manni fleiri á ísnum (power play) en helmingur markanna kom við þær aðstæður.
SR-ingar hafa nú tapað fjórum leikjum í röð. Eftir ágætis byrjun hefur liðið dalað nokkuð á meðan bæði Björninn og SA hafa verið að sækja í sig veðrið. Næstu vikur munu svo skera úr hvort SR-ingum tekst að hafa sig upp úr öldudalnum eður ei.
Mörk/stoðsendingar SA:
Jóhann Leifsson 2/0
Josh Gribben 1/2
Jón B. Gíslason 1/1
Orri Blöndal 1/0
Helgi Gunnlaugsson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/4
Ingólfur Elíasson 0/2
Refsimínútur SA: 18 mín.
Refsimínútur SR: 12 mín.
Myndina tók Elvar Freyr Pálsson
HH