11.03.2010
Skautafélag Akureyrar og Björninn léku fimmta leikinn í úrslitum Íslandsmótsins í íshokkí gærkvöld. Leiknum lauk með sigri Skautafélags Akureyrar sem gerði 6 mörk gegn 2 mörkum Bjarnarins. Með sigrinum trygguð SA-menn sér Íslandsmeistaratitilinn keppnistímabilið 2009-10.
Leikurinn reyndu að fara varlega í byrjun enda mikið í húfi. Það leið þó ekki á löngu þar til fyrsta markið kom en þá nýttu Bjarnarmenn sér að vera einum fleiri en Birgir Hansen sá um markaskorunina. Bjarnarmenn náðu að halda forustunni í um 10 mínútur en þá jafnaði Jóhann Már Leifsson metin fyrir heimamenn og staðan því orðin 1 – 1 og þannig hélst hún þangað til flauta var til leikhlés.
Í öðrum leikhluta náðu SA-menn góðri stjórn á leiknum og sóttu stíft. Eftir miðja lotu náðu þeir að skora þrjú mörk. Gunnar Darri Sigurðsson reið á vaðið en þeir Andri Freyr Sverrisson og Stefán Hrafnsson bættu hinum tveimur mörkunum við. SA-menn því komnir í þægilega stöðu enda erfitt að sækja fjögur mörk á þá.
Birgir Hansen gaf þó Bjarnarmönnum smá glætu eftir um fimm mínútna leik í þriðja leikhluta. SA-menn voru hinsvegar ekki á þeim buxunum að hleypa Bjarnarmönnum neitt inn í leikinn og Stefán Hrafnsson jók aftur forystuna fyrir þá um miðja lotu og það var síðan Ingvar Þór Jónsson sem kláraði leikinn fyrir þá með góðu skoti þegar þeir nýttu sér að vera manni fleiri.
Stemmingin í nýliðinni úrslitakeppni hefur verið með eindæmum skemmtileg. Stuðningsmenn liðanna hafa fjölmennt á leikina og skemmt sér konunglega.
SA-menn byrjuðu úrslitin illa í fyrsta leik en sýndu styrk sinn þegar á leið. Liðið er góð blanda af eldri og yngri leikmönnum sem nær að vinna vel saman ásamt því að liðið virtist vera í mjög góðu formi. Liðið var einnig efst eftir deildarkeppnina og því vitað mál að þeir yrðu erfiðir í úrslitunum.
Bjarnarmenn geta að mörgu leyti vel við unað þrátt fyrir að hafa ekki náð að landa titlinum. Eftir átta leiki í deildarkeppninni var liðið með 3 stig og útlitið ekki bjart. Liðið náði þrátt fyrir það að koma sér í úrslit og velgja norðanmönnum undir uggum ásamt því að ná sér í dýrmæta reynslu.
Mörk/stoðsendingar SA:
Stefán Hrafnsson 2/0
Jóhann Már Leifsson 1/0
Gunnar Darri Sigurðsson 1/0
Andri Freyr Sverrisson 1/0
Ingvar Þór Jónsson 1/0
Josh Gribben 0/2
Sigurður S. Sigurðsson 0/1
Rúnar F. Rúnarsson 0/1
Refsimínútur SA: 14 mín.
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Birgir J. Hansen 2/0
Brynjar F. Þórðarson 0/1
Róbert F. Pálsson 0/1
Gunnar Guðmundsson 0/1
Refsimínútur Björninn: 20 mín.
Við óskum SA-mönnum til hamingju með titilinn.
HH