SA - Björninn umfjöllun

Skautafélag Akureyrar bar sigurorð af Birninum með fjórum mörkum gegn tveimur í skautahöllinni á Akureyri sl. laugardagskvöld.
Sigurinn hjá Akureyringum var nokkuð sannfærandi og svo virðist sem þeir séu komnir með tak á Bjarnarmönnum því æði langt er orðið síðan Bjarnarmenn náðu að leggja þá.

Strax í fyrstu lotu komust SA-menn í 2 – 0. Í fyrra skiptið var þar að verki Einar Valentine eftir stoðsendingu frá Sigurði S. Sigurðssyni. Stuttu seinna bætti Stefán Hrafnsson við marki  eftir sendingu frá Jóhanni Leifssyni.

Í annarri lotu héldu  SA-menn áfram að sækja og bættu við  tveimur mörkum í viðbót. Björn Már Jakobsson kom með það fyrra með lúmsku skoti. Það síðara átti Steinar Grettisson sem komst inn í sendingu í miðri skiptingu hjá gestunum. SA-menn því komnir með örugga og verðskuldaða forystu í leiknum. Bjarnarmenn létu hinsvegar lítið að sér kveða í fyrstu tveimur lotunum en náðu þó að bæta sinn leik í þeirri þriðju.

Falur Birkir Guðnason kom þeim á blað með sínu fyrsta marki í meistaraflokki og er ástæða til að óska honum til hamingju með þann áfanga. Stuttu síðar bætti Gunnar Guðmundsson við marki eftir stoðsendingu frá Brynjari F. Þórðarsyni en lengra komust Bjarnarmenn ekki að þessu sinni.   

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH