Skautafélag Akureyrar og Björninn léku fimmta og síðasta leikinn í úrslitum í gærkvöld og fór leikurinn fram á Akureyri. Leiknum lauk með sigri SA-manna sem gerðu fjögur mörk án þess að Bjarnarmenn næðu að svara fyrir sig. Með sigrinum tryggðu SA-menn sér íslandsmeistaratitilinn árið 2013.
Bæði lið sóttu nokkuð í fyrstu lotu en SA-menn voru þó ívið sókndjarfari og uppskáru eina mark lotunnar. Þeir nýttu sér þá að tveir Bjarnarmenn voru í refsiboxinu en það var Ingvar Þór Jónsson sem átti markið sem skildi liðin að.
Í annarri lotu þyngdist sókn Bjarnarmanna töluvert og þeir fengu nokkur góð tækifæri til að jafna leikinn. Varnarleikur SA-manna var hinsvegar sterkur og ekki skemmdi fyrir að markvörður þeirra, Ómar Smári Skúlason, var í miklu stuði og átti góðar vörslur. Lotan var því markalaus, staðan áfram 1 - 0 heimamönnum í vil og allt gat gerst.
Í þriðju og síðustu lotunni gulltryggðu SA-menn sér sigurinn en í henni fór Lars Foder mikinn því hann skoraði öll þrjú mörk liðsins í lotunni. Fyrsta markið hans kom þegar um sex mínútur voru liðnar af lotunni en tvö þau síðari þegar langt var liðið á lotuna.
Úrslitakeppnin að þessu sinni, einsog svo oft áður, var hin besta skemmtun og bæði lið eiga lof skilið fyrir þa skemmtun sem þau buðu áhorfendum sínum upp á að þessu sinni.
Við óskum SA-mönnum að sjálfsögðu til hamingju með titilinn.
Mörk/stoðsendingar SA:
Lars Foder 3/1
Ingvar Þór Jónsson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/3
Sigurður S. Sigurðsson 0/1
Hermann Sigtryggsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Refsingar SA: 12 mínútur.
Refsingar Björninn: 14 mínútur.
Myndir: Sigurgeir Haraldsson
HH