Vilhelm Már Bjarnason sem um árabil lék með Birninum venti kvæði sínu í kross á þessu ári og hélt til náms í Finnlandi. ÍHÍ-síðan bað Vilhelm fyrir stuttu að skrifa smá bréfkorn um námið. Hér er það.
Ég er í námi við HAAGA-HELIA UNIVERSITY í Vierumäki sem er 30 km norður af borginni Lahti í Finnlandi og er að læra Íþrótta- og frístundastjórnun (Sports and Leisure Management). Námið tekur um þrjú ár og skiptist í, tvö ár bók- og verklegt nám hérna í sveitinni í Finlandi og eitt ár verklegt hvar sem er í heiminum. Námið fer fram á ensku og er Alþjóða íshokkísambandið (IIHF) aðalbakhjarl þess.
Námsbrautin er aðallega ætluð íshokkíþjálfurum en bekkjarfélagar mínir koma ekki bara úr íshokkí heldur hafa þeir verið við þjálfun í körfubolta, fótbolta og fleiri íþróttum. Þar sem kennslan fer fram á ensku býður námið upp á að námsmenn komi víða að úr heiminum t.d. frá Slóveníu, Ísrael, Þýskalandi, Japan, en er það vilji IIHF að hjálpa íshokkíþjóðum að mennta þjálfara sína.
Við vinnum að verkefnum fyrir IIHF og finnska íshokkísambandið (FIA) t.d. var ég að vinna að framtíðar hugmyndum um notkun LED ljósa í ísnum og hvernig mætti nota þau til þjálfunar sem og í leik. Eitt af finnsku atvinnumannaliðunum, Pelicans í Lahti, er með LED ljós í marklínunum og lýsa þau þegar mark er skorað.
Bóklegufögin á fyrstu önn eru líffræði, sálfræði, næringarfræði og þjálfunar og stjórnunar áfangar. Nemendur hafa ótakmarkaðan aðgang að íþróttaaðstöðunni eftir kennslu. Öll aðstaðan hér er frábær fyrir næstum hvaða íþrótt sem er, það eru fleiri en 6 innanhúss tennisvellir og u. þ. b. 15 útivellir, 2 svell (eitt í norður amerískri stærð og hitt alþjóðleg stærð), upphitaður gervigrasfótboltavöllur í fullri stærð, íþróttahöll með aðstöðu fyrir, körfubolta, badminton, bardagalistir, bandy, líkamsrækt og frjálsaríþróttir, sundlaug og tveir 18 holu golfvellir.
Það er erfitt að láta sér leiðast því að þú getur alltaf fundið þér eitthvað að gera, en aðalvandamálið að þú vilt frekar fara út að leika heldur en að læra, en það er lúxus vandamál.
Eftir þetta nám útskrifast ég með Bachelor of Sports Studies, eins mun ég verða með hæstu þjálfararéttindi frá IIHF. Útskrifaðir nemendur hafa fengið atvinnutilboð hvaðanæva að úr heiminum frá IIHF í Sviss, t.d. sem þróunarstjóri íshokkís í Singapúr, aðalþjálfari Espoo Blues (atvinnuíshokkílið rétt fyrir utan Helsinki) og þjálfara störf Finnland og annars staðar í heiminum. Í fyrra keppti íslenska u-20 ára landsliðið í Eistlandi þar sem nemendur héðan stjórnuðu eistneska landsliðinu.
Hyvä kiitos/Bestu kveðjur frá Finnlandi
Vilhelm Már Bjarnason