Það var fyrirfram vitað að leikurinn á móti Rúmenum yrði erfiður enda höfðu þeir ekki tapað leik á mótinu. En líkt og í öðrum leikjum mótsins var jafnræðið ríkjandi og eftir venjulegan leiktíma var staðan 2 – 2. Jafntefli á móti Rúmeníu er vissulega Íslands besti árangur gegn þeim og sömuleiðis fyrsta skiptið á mótinu sem Rúmenar misstu stig. Þetta eina stig dugaði Íslandi ekki og því var mikilvægt að ná aukastiginu en það hefði þýtt silfurverðlaun. Því miður voru það Rúmenar sem náðu því og innsigluðu þar með sigur sinn í riðlinum og í stúkunni fögnuðu Serbarnir og Belgar gríðarlega.
Í leikslok var markvörðurinn Snorri Sigurbergsson valinn besti leikmaður liðsins í leiknum og varnarmaðurinn Birkir Árnason besti leikmaður íslenska liðsins á mótinu. Svo hlotnaðist Birni Róberti Sigurðssyni sá heiður að vera valinn besti sóknarmaðurinn á mótinu sem er mikill heiður fyrir hann og íslenska landsliðið. Í fyrra var Ingvar Þór Jónsson valinn besti varnarmaður mótsins og eru þetta fyrstu tvö skiptin sem okkar leikmönnum hlotnast þessi heiður.
Það er grátlegt að aðeins eitt mark skilji á milli 2. og 5. sætis en svona er þessi riðlakeppni og hvert einasta stig og hvert einasta mark skiptir máli.
Lokastaðan á mótinu var þessi:
Rúmenía 14 stig
Belgía 8 stig
Serbía 7 stig
Spánn 7 stig
Ísland 7 stig
Ástralía 2 stig
Ástralía fellur því niður í 3. deild og Rúmenía fer beint upp aftur í b-riðil 1. deildar.