Leikur kvöldsins

Leikur kvöldsins er leikur Bjarnarins og Skautfélags Akureyrar. Leikurinn fer fram í Egilshöll og hefst klukkan 19.00. Segja má að leikurinn sé mikilvægur fyrrir bæði lið.

Heimamenn í Birninum vilja halda áfram því ágæta ferðalagi sem þeir hafa verið á síðan um miðjan desember. Þeir hafa komið mörgum á óvart með því að vinna þrjá leiki í röð eftir frekar dapra byrjun. Með sigri halda Bjarnarmenn möguleikum sínum opnum á að komast inn í úrslitakeppnina.

SA-menn virðast líka vera á réttri leið ef marka má eitthvað síðasta leik sem þeir spiluðu. Þá höfðu þeir stórsigur á SR-ingum þegar þeir gerðu 6 mörk gegn engu marki SR-inga. Liðið hefur síðustu vikur verið að fá aukinn mannskap inn eftir meiðsli auk þess sem Rúnar F. Rúnarsson er kominn úr leikbanni fyrir leikinn í kvöld.

Bæði lið hafa yfir ágætis breidd að ráða og ef spilað verður á öllum línum má gera ráð fyrir hröðum og skemmtilegum leik í Grafarvoginum í kvöld.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH