03.11.2009
Mörgum kann að þykja hafa verið rólegt yfir meistaraflokki karla í byrjun tímabils en frá og með síðustu helgi hefst lota leikja sem stendur fram í miðjan desember. Einn af þeim leikjum er í kvöld en þá mætast Skautafélag Reykjavíkur og Björninn í Laugardalnum og hefst leikurinn klukkan 20.00. SR-ingar mæta fullir sjálfstrausts til leiks enda liðinu gengið ágætlega í byrjun tímabils þrátt fyrir að hafa misst Mörrum-liðana Egil, Pétur og Tómast frá síðasta tímabili. Byrjunin hjá Birninum hefur hinsvegar verið æði erfið og ekkert stig í húsi ennþá og vondur tapleikur að baki. Það breytir því ekki að Bjarnarmönnum hefur á stundum tekist að gera SR-ingum lífið leitt og því munu bæði lið mæta á svellið á fullri ferð.
Ekki skemmir fyrir að þjálfari karlaliðs Mörrum, Tommy Fors, er á landinu og ætlar að fylgjast með efnilegum leikmönnum svo flestir þeirra vilja sjálfsagt sýna sínar bestu hliðar í kvöld.
Það er því hægt að lofa spennandi leik og ástæða til að fjölmenna í höllina en hokkífólki til mikillar ánægju fjölgar jafnt og þétt á leikjum hjá okkur sem sýnir vaxandi áhuga meðal almennings á sportinu okkar.
Myndina tók Ómar Þór Edvardsson.
HH