Leikur kvöldsins


Frá leik liðanna í Egilshöll                                                                                                                Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir

Leikur kvöldsins er leikur Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins í meistaraflokki karla. Leikurinn fer fram í skautahöllinni í Laugardal og hefst klukkan 20.15.

Einsog stigataflan ber með sér skiptir leikurinn miklu máli fyrir bæði lið og því nokkuð öruggt að leikmenn beggja liða munu leggja sig alla fram til að ná í stigin þrjú sem eru í boði.

SR-ingar hafa undanfarið verið að fá leikmenn til baka sem áttu ekki heimangegnt í leiki liðsins fyrir áramót. Robbie Sigurdsson var frá á tímabili af persónulegum ástæðum og Björn Róbert Sigurðarson var frá vegna meiðsla en einnig kom Pétur Maack kom heim frá Svíþjóð. Liðið hefur því verið að styrkjast í undanförnum leikjum. Reyndar er óvíst hvort varnarmaðurinn Guðmundur Björgvinsson verður með á morgun en hann varð fyrir óhappi á æfingu fyrir stuttu.

Bjarnarmenn hafa einnig verið að styrkjast undanfarna viku eða svo. Fyrst kom til liðs við þá Arnar Bragi Ingason og á síðasta degi janúarmánaðar bættust í hópinn þeir Gunnar Guðmundsson, Úlfar Jón Andrésson og Róbert Freyr Pálsson. Allt eru þetta leikmenn sem hafa leikið með Birninum áður og ættu því að vera öllum hnútum kunnugir.

HH