Leikir kvöldsins

Leikið er bæði norðan og sunnan heiða á íslandsmótinu í íshokkí í kvöld.

SA Valkyrjur og SA Ynjur eigast við klukkan 19.30 og fer leikjurinn að sjálfsögðu fram í Skautahöllinni á Akureyri. Valkyrjur hafa haft nokkurra yfirburði á íslandsmótinu í vetur og því sigurstranglegar í kvöld. Bæði liðin og reyndar öll liðin bíða nú spennt eftir að Sarah Smiley landsliðsþjálfari ásamt aðstoðarþálfara sínum, Helga Páli Þórissyni birti lið sitt. Einsog flestir vita verður HM-mót kvenna haldið hér heima í lok mars og því að miklu að keppa.

Sunnan heiða leika Skautafélag Reykjavíkur og Björninn í 2. flokki karla og hefst leikurinn klukkan 20.15. Síðasti leikur liðanna var spennandi fram á síðustu mínútu en þess má geta að síðustu sex leikjum í 2. flokki hafa endað þar sem markamunur er tvö mörk eða minna.

Mynd: Sigurgeir Haraldsson

HH