Leikir kvöldsins eru tveir að þessu sinni og fara fram á sitthvoru landshorninu.
Í Egilshöll mætast lið Bjarnarins og SR í meistaraflokki kvenna og hefst leikurinn klukkan 19.30. Þetta er í annað skipti á þessum vetri sem þessi lið mætast en í fyrri leik liðanna fóru Bjarnarkonur með öruggan 0 - 9 sigur af hólmi og því á brattann að sækja fyrir SR-konur. Spilaæfingin ætti allavega að vera með besta móti því flestir liðsmenn beggja liða tóku þátt í alþjóðlegu móti sem fram fór í Egilshöll um liðna helgi.
Í meistaraflokki karla mætast Jötnar og Húnar og hefst sá leikur einnig klukkan 19.30. Jötnar eru enn án stiga í deildinni en Húnar hafa unnið tvo af leikjum sínum en bæði liðin hafa leikið fjóra leiki. Jötnar hafa fram til þessa stillt upp ungum og efnilegum leikmönnum í leikjum sínum og sjálfsagt verður svo áfram. Húnar á hinn bóginn hafa hingað til mætt með blöndu eldri og yngri leikmanna og verður fróðlegt að sjá hvort svo verður áfram.
Mynd: Gunnar Jónatansson
HH