Fara í efni
Króatía 4. hluti
18.04.2011
Það var komið að síðasta degi og síðasta leik. Leikurinn var gegn frændum vorum Írum og eftir að hafa horft á brot úr leikjum þeirra mátti ganga út frá að leikurinn yrði ekki erfiður fyrir okkar menn. Sú varð og raunin og leikurinn vannst með 14 – 0. Leiknum einsog öðrum var lýst á mbl.is og finna má hann hérna. Gauti Þormóðsson og Ingólfur Elíasson tjáðu sig um leikinn á mbl.is. Maður leiksins var valinn Andri Már Mikaelsson.
Að leik loknum fór góður hluti liðsins í mat upp á hótel og síðan var haldið á síðasta leik keppninnar sem var leikur heimamanna Króata og Rúmena. Leikurinn var hörkuspennandi en það voru Rúmenar sem fóru með sigur af hólmi og unnu sér þar með réttinn til að leika í 1. deild á næsta ári. Eftir úrslitin úr leiknum geta menn sér svo ímyndað sér styrkleika íslenska liðsins sem hafði góða möguleika á að vinna gullhafa Rúmena í leik liðanna. Stefnan er því í rétta átt, þ.e.a.s upp á við.
Að leik loknum fór fram verðlaunaafhending en í henni hlaut Egill Þormóðsson viðurkenningu sem besti leikmaður íslenska liðsins í mótinu. Leikmenn íslenska liðsins tóku síðan við bronsverðlaunum sínum og fengu gott „Ísland“ hróp frá áhorfendum í stúkunni.
Mótinu var síðan slitið og liðin héldu heim á leið.
Takk fyrir okkur
Mynd: Kristján Maack
HH