Íslenska karlalandsliðið átti ágæta spretti í leik sínum gegn Króatíu í dag. Fyrirfram var vita að landslið króata væri sterkt og vel spilandi enda skipað leikmönnum sem spila nær allir í sterkari deildum en okkar strákar. En á köflum náðum við að svara fyrir okkur með ágætum varnarleik og gáfum þeim fá færi þegar við náum að spila okkar leik. Andstæðingurinn var hinsvegar mjög snöggur að nýta sér þau einstaklingsmistök sem við gerðum í leiknum og komu sér þannig í afar vænlega stöðu snemma í leiknum. Staðan var 4 - 0 þegar það var gengið til búningsklefa eftir fyrsta leikhluta.
Annað var upp á teningnum í öðrum leikhluta hjá okkar strákum og náði Jóhann Már Leifsson að skora fyrsta mark Íslands í leiknum með aðstoð frá Andra Má Mikaelssyni og Kristjáni Jóhannessyni. Aðeins síðar í lotunni skoraði Viggó Hlynsson afar smekklegt mark, manni færri, með aðstoð frá Hilmari Sverrissyni. Króatar náðu að skora 4 mörk í öðrum leikhluta og komu sér í stöðuna 8 - 2.
Í þriðja og síðasta leikhlutanum náðu króatar að skora alls 3 mörk án þess að við náum að svara þrátt fyrir margar góðar tilraunir. Lokastaða leiksins því 11 -2 króötum í vil.
Þrátt fyrir stórt tap var margt gott hægt að taka úr leik liðsins og hafa þjálfarar og starfsfólk liðsins eytt lunganum af deginum í að undirbúa leik morgundagins gegn landsliði Sameinuðu Arabísku Furstadæmana en við mætum þeim kl10:30 að íslenskum tíma á morgun og hægt verður að horfa á leikinn í beinni á Youtube.