Kanadískur stelpuhokkídagur á Íslandi!


Sami Jo Small sem er þrefaldur ólympíumeistari og fimmfaldur heimsmeistari með Kanadíska landsliðinu er stödd á Íslandi í tengslum við Bikarmót Icelandair mót sem fer fram í Egilshöll dagana 7-9.október nk. Sami Jo, ásamt stelpum í landsliði Íslands, mun taka á móti stelpum á öllum aldri sem hafa áhuga á að prófa íshokkí eða eru að æfa íshokkí, sunnudaginn 9.október kl. 14-16 í Egilshöll og leiðbeina þeim í þessari  hröðustu íþrótt í heimi.

Koma Sami Jo er án efa stórviðburður fyrir íshokkíunnendur á Íslandi og sýnir hún okkur Íslendingum mikinn heiður með því að eyða tíma sínum í að leiðbeina  og miðla íslenskum  íshokkíleikmönnum af reynslu sinni og þekkingu. Sami Jo er markmaður og hyggst hún því einnig vera með æfingu fyrir markmenn sem verður eflaust áhugavert að fylgjast með. Að auki verður Billy Bridges með kynningu á "Sleðahokkí" en hann  er liðsmaður landsliði Kanada í sleðahokkí.

5 Kanadísk kvennalið taka þátt í þessu móti í Egilshöll og spila við 4 lið skipuð íslenskum leikmönnum.  En fyrir utan að koma hingað til að spila hokkí þá eru konurnar frá Kanada mjög áhugasamar um að leggja þróunarstarfi í íshokkí kvenna á Íslandi lið.  Á sunnudaginn verður afhentur búnaður sem þær gefa félögunum í Reykjavík til að efla nýliðun í íshokkí kvenna en eins og vitað er þá þarf talsverðan búnað til að spila íshokkí og hann er dýr.