Jötnar - Húnar umfjöllun

Jötnar og Húnar áttust við á íslandsmótinu í íshokkí á laugardagskvöld og fór leikurinn fram á Akureyri. Leiknum lauk með sigri Jötna sem gerðu 4 mörk gegn 2 mörkum Húna.  

Jafnræði var með liðunum og ágætis hraði í leiknum.  Um miðja fyrstu lotu komust Jötnar yfir með marki frá Andra Frey Sverrissyni en stoðsendinguna átti Helgi Gunnlaugsson. Andri Freyr var síðan aftur á ferðinni tæpum tveimur mínútum fyrir lotulok og staðan því orðin vænleg fyrir Jötna. Örfáum sekúndum fyrir lotulok náði Matthías Skjöldur Sigurðsson hinsvegar að minnka muninn fyrir Húna eftir sendingu frá Fal Birki Guðnasyni. Staðan því 2 -1 eftir fyrstu lotu.

Í annarri lotunni hélt baráttan áfram en það voru Jötnar sem gerðu eina mark lotunnar en þar var á ferðinni Birgir Þorsteinsson eftir sendingu frá Hermanni Sigtryggssyni og staðan því 3 – 1.

Húnar hleyptu svo nokkurri spennu þegar fimm mínútur lifðu síðustu lotu en þá skoraði Falur Birkir Guðnason mark en stoðsendinguna átti Sergei Zak. Húnar lögðu svo allt í að jafna leikinn og undir lokin tóku þeir markmann sinn af ísnum og settu útleikmann inn á í staðinn. En allt kom fyrir ekki, Húnar misstu frá sér pökkinn og Sæmundur Þór Leifsson tryggði Jötnum 4 – 2 sigur með auðveldu marki.

Mörk/stoðsendingar Jötnar:

Andri Freyr Sverrisson 2/0
Birgir Þorsteinsson 1/0
Sæmundur Leifsson 1/0
Helgi Gunnlaugsson 0/1
Hermann Sigtryggsson 0/1

Refsingar Jötnar: 28 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Húnar:

Falur Birkir Guðnason 1/1
Matthías S. Sigurðsson 1/0
Sergei Zak 0/1

Refsingar Húnar: 44 mínútur.

Mynd: Ágúst Ásgrímsson

HH