Loturnar fóru 3 – 0, 1 – 0 og 4 – 0. Allir fengu að spila og fyrir þá sem eru velta fyrir sér línum þá voru framlínurnar svona; Bjössi, Óli Hrafn og Siggi Reynis, Gunnar Darri, Brynjar Bergmann og Steindór, og Jói, Arnar Bragi og Óli Óla, og svo var Gunnlaugi Guðmundssyni róterað inn í línurnar og m.a. gerði sér lítið fyrir og skoraði sitt fyrsta mark með landsliðinu. Varnarpörin voru Ingþór og Ingólfur, Tommi og Andri, og Úlfur og Daníel en sá síðastefndi var í lokin valinn besti maður íslenska liðsins og brosti breitt þegar hann tók við verðlaununum.
Leikur íslenska liðsins var í flesta staði mjög góður en liðið var með helst til of margar brottvísanir og það er eitthvað sem þarf að leysa fyrir næsta leik. Gegn sterkara liðið getur slíkt reynst okkur dýrkeypt en í heildina var liðið með 34 mínútur á móti 12 hjá Tyrkjum, en inní því eru þó 10 mínútur sem Bergmann fékk fyrir aftanákeyrslu.
Stigahæstur í leiknum var fyrirliði liðsins Ólafur Hrafn Björnsson sem var sá eini sem var með tvö mörk en þar utan voru 6 leikmenn með hin mörkin og í heildina komust 11 leikmenn á blað. Eins og sjá má á samsetningu línanna þá er um þrjár nokkuð jafnar línur að ræða og að geta keyrt á þremur línum alla leikina með fullu trausti til þeirra allra, sýnir mikla breidd og mun skipta miklu máli þegar líður á mótið.
Skv leikskýrslu voru eftirfarandi leikmenn með stig, en eitthvað vantaði þó af stoðsendingum hjá dómurunum.
Ólafur Hrafn Björnsson 2/1
Björn Róbert Sigurðarson 1/1
Sigurður Reynisson 1/1
Ólafur Árni Ólafsson 1/0
Steindór Ingason 1/0
Gunnar Darri Sigurðsson 1/0
Gunnlaugur Guðmundsson 1/0
Ingólfur Elíasson 0/1
Andri Már Helgason 0/1
Tómas Tjörvi Ómarsson 0/1
Daníel Hrafn Magnússon 0/1
Næsti leikur er gegn Nýja Sjálandi og sá leikur gæti verið úrslitaleikurinn á mótinu.